ORF Líftækni, sem stofnað var árið 2001, er í mikilli sókn þessi misserin, eftir langt tímabil þar sem mikill kraftur hefur verið í rannsóknir og þróun. Í fyrra hagnaðist fyrirtækið um 161 milljón, en rekstrarhagnaður nam 341 milljón.
Í tilkynningu frá félaginu, sem send var í kjölfar aðalfundar félagsins, segir að sóknarhugur sé nú í fyrirtækinu, en tekjuvöxtur var tæplega 30 prósent í fyrra námu heildartekjur tæplega 1,6 milljarði króna.
Eins og áður segir, þá spannar saga félagsins tæplega tvo áratugi og mun fyrirtækið fagna 20 ára afmæli 2021. Það framleiðir og selur sérvirk prótein, sem eru í BIOEFFECT húðvörum fyrirtækisins, sem hafa notið vaxandi vinsælda á alþjóðlegum mörkuðum að undanförnu.
Próteinin eru einnig notuð í læknisfræðilegar rannsóknir og líftækni, en grunnurinn í starfsemi fyrirtækisins er þróun á próteinum í byggi, þar sem fræ í byggplötunni eru notuð til framleiðslunnar.
Að sögn Frosta Ólafssonar, forstjóra, markaði síðasta ár ákveðin vatnaskil í afkomu fyrirtækisins. „Við erum búin að skila bókhaldslegum hagnaði frá árinu 2014, en nú náum við kröftugu stökki upp á við í afkomu félagsins í gegnum hagfellda samsetningu söluvaxtar og aukna stærðarhagkvæmni í rekstrinum,“ segir Frosti.
Eitt stærsta skrefið í bættum rekstri og sókn félagsins með BIOEFFECT vörumerkið, er að komast inn á sölusíðu Sephora, stærsta snyrtivörusmásala í heimi. Þá hafa fleiri skref verið stigin til að dreifa vörunum meira, meðal annars í Asíu.
Frosti segir að ORF Líftækni sé fyrirtæki sem sé alþjóðlegt þekkingarfyrirtæki, og að það sé mikilvægt að slík fyrirtæki geti vaxið og dafnað. „Það er mikilvægt að hlúa vel að þessum hluta hagkerfisins til að ungu fólki á Íslandi standi til boða störf hjá alþjóðlegum þekkingarfyrirtækjum og hér geti lífskjör verið áfram með besta móti. Ísland hefur reynst verðmætur hornsteinn í ímyndartengdu samhengi fyrir ORF en rekstraraðstæður hérlendis hafa verið krefjandi á ýmsan hátt. Við hvetjum því stjórnvöld til að huga sérstaklega að rekstrarumhverfi fyrirtækja þannig að alþjóðlegur þekkingariðnaður geti blómstrað á Íslandi.“