Jin Zhijian sendiherra Kína á Íslandi segir að Íslandi standi til boða að vera með í gríðarlega umfangsmikilli innviðaáætlun Kínverja, Belti og Braut, sem nær frá Asíu til Evrópu.
Umfang hennar nemur á við 10 falda Marshall áætlun Bandaríkjanna eftir seinni heimstyrjöldina, og tekur til uppbyggingar á ýmsum innviðum, t.d. á sviði orku og samgangna, og alþjóðasamstarfs í víðum skilningi.
Þá er mikill áhugi hjá íslenskum fyrirtækjum á því að tengjast áætluninni, til dæmis með opnun tækifæra inn á ný markaðssvæði.
Þetta kom fram í ítarlegu viðtali við Zhijian í þættinum Ísland og umheimurinn, sem er á dagskrá Hringbrautar.
Zhijian segir meðal annars að Kínverjar hafi átt frumkvæði að áætluninni, og unnið að henni frá 2013, en um 80 þjóðir hafa samþykkt að taka þátt í henni með einhverjum hætti.
Belti og Braut hefur verið gagnrýnd nokkuð, meðal annars fyrir það að Kínverjar séu með áætluninni að auka áhrif sín til muna á alþjóðavettvangi, en Zhijian gefur lítið fyrir það.
„Megintilgangur þess er að koma á kerfi sem gæti verið mikilvægur rammi fyrir alþjóðlega samvinnu og myndi hvetja til sameiginlegrar framþróunar. Þetta frumkvæði nær til fimm lykilsviða: Það er stefnumörkunar, innviða, viðskipta, fjármála og að tengja fólk saman. Það má segja þetta fimm tengingar á fimm lykilsviðum. Þetta stendur einnig fyrir opna, hreina og græna þróun, sem byggir á nánu samráði, sameiginlegu framlagi og ávinningi allra. Þetta var gert að frumkvæði Kína,“ segir sendiherrann meðal annars í viðtalinu.
Ekki hefur verið ákveðið enn með þátttöku Íslands í áætluninni, en Zhijian segist reikna með ákvörðun um málið innan tíðar.
Ísland var einng stofnaðila Innviðafjárfestingabanka Asíu (AIIB), og hefur aukið umfang viðskiptasambands við Kína, meðal annars með fríverslunarsamningi og auknu sambandi á svæði viðskipta.