„Núverandi fyrirkomulag, þar sem fámennur hópur stjórnarandstæðinga getur tekið þingið í gíslingu, gengur ekki til framtíðar.“
Þetta segir Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í grein í Fréttablaðinu í dag þar sem hún fjallar um málþóf þingmanna Miðflokksins í umræðum um þriðja orkupakkann og fyrirkomulag umræðna á Alþingi.
Í greininni segir Bryndís að málþóf eigi ekkert skylt við málfrelsi eða lýðræði og að það þekkist hvergi utan Íslands. „Málþóf er séríslenskt fyrirbrigði. Alþingi er enginn venjulegur vinnustaður. En vinnustaður er hann engu að síður, þar sem vanda þarf mjög til verka til að tryggja góða lagasetningu. Þegar andstæð sjónarmið hafa komið fram í þingsal er nauðsynlegt að leiða mál til lykta, ýmist með málamiðlunum eða með atkvæðagreiðslum þar sem hreinn meirihluti ræður. Hvort sem þingmenn verða undir eða yfir í einstaka málum er óumdeilt að þetta er skilvirk og sanngjörn aðferð til að komast að niðurstöðu. Daga og nætur eru þingfundirnir undirlagðir af ræðum þingmanna úr einum þingflokki þar sem hver þingmaðurinn fer í ræðustól á fætur öðrum og samflokksþingmennirnir tínast í andsvör við þann fyrri. Að ógleymdu hólinu hvers til annars, það er gott að fá klapp á bakið.“
Áframhaldandi umræða verður um þriðja orkupakkann klukkan 15:30 í dag.
Vegna málþófsins hefur forsætisnefnd Alþingis þurft að bæta við þingfundum í dag og á morgun, en til stóð að þeir dagar yrðu undirlagðir undir nefndarfundi.
Stefnt er að því að slíta þingi 5. júní næstkomandi. Nokkuð ljóst er að þau nokkur hundruð frumvörp, þingsályktunartillögur og fyrirspurnir sem bíða afgreiðslu þingsins munu ekki ná að komast á dagskrá né klárast fyrir komandi þinglok.