„Núna upplifi ég það að það hefur tekist einhvern veginn að finna kjallara undir botninum á siðferði í íslenskri pólitík þar sem það þykir ekki siðlegt að benda á skort á rannsókn á grunsamlegu athæfi og krefjast hennar. Að það sé ekki smart.“
Þetta segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, um þá niðurstöðu siðanefndar Alþingis að hún hafi gerst brotleg við siðareglur með því að segja að rökstuddur grunur væri um að Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefði dregið að sér fé.
Hún var gestur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Þórhildur Sunna bendir á að erlendis sé það refsiverður verknaður að svíkja út opinbert fé. „Það er talið refsivert og erlendis er það rannsakað. Tökum nýlegt dæmi um hana Heke Haukeland Liadal þar sem norska þingið hefur óskað eftir því að lögreglan rannsaki meint fjársvik. Við rannsókn þingsins á þeim greiðslum sem komu til hennar kom í ljós að hún gat ekki gert grein fyrir akstri 3.806 kílómetra. Hún fékk einhverjar 200 þúsund krónur of mikið greiddar. Þetta hefur verið rannsakað og hún hefur nú verið látin stíga til hliðar.“
Þórhildur Sunna segir að um sama verknað sé að ræða, hjá Ásmundi og Heke Haukeland Liadal. Og ef sá verknaður sannast þá sé hann refsiverður. „Erlendis er hann rannsakaður og það er tekin pólitísk ábyrgð. Hér heima er hann ekki rannsakaður og það er ekki tekin pólitísk ábyrgð. Þú sérð það að forsætisnefnd vísaði frá ósk um það að rannsaka akstursgreiðslurnar til hans. Ég hef verið að benda á að það sé eðlilegt að rannsaka þetta.“