„Ég held að núverandi ríkisstjórn sé síðasta vígi gamla flokkakerfisins.“
Þetta segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, um stöðuna í íslenskum stjórnmálum í dag og bætir við að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir, með Vinstri græna, Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn innanborðs, hafi gert lokatilraun til að halda hinu svokallaða 4+1 kerfi lifandi. „Að sýna landsmönnum að stöðugleikinn kemur bara með þessu gamla gamalgróna og góða. Ég vona bara að tíminn sanni að það sé kannski ekki æskilegast að hafa svona rosalega íhaldssaman flokk á hægri vængnum og pínu íhaldssaman flokk á vinstri vængnum að reyna að vinna sama og halda að það verði einhver framþróun úr því.“
Hún var gestur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Í þættinum ræðir Þórhildur Sunna þann nýja pólitíska veruleika sem felst í því að kerfi með átta eða níu flokkum á stjórnmálasviðinu sé að festa sig í sessi, í stað þess að gamli fjórflokkurinn fékk ávallt saman um 90 prósent í kosningum og stundum komst einn til viðbótar að. Hún segir að línur séu að markast innan hins nýja kerfis þar sem líkari flokkar starfi saman að ýmsum málum, líkt og hefð er fyrir á hinum Norðurlöndunum.
Aðspurð hvort að hún sjái fyrir sér að næstu ríkisstjórnir muni teiknast upp eftir þessum línum segir Þórhildur Sunna að flokkar með svipaða sýn séu að minnsta kosti best til þess fallnir að vinna saman. „Ég vona að næsta ríkisstjórn verði samsett af frjálslyndum flokkum sem vilja auka alþjóðasamstarf, vilja vinna gegn loftlagsáhrifum, vilja efla jafnrétti, lýðræði og gagnsæi í stjórnmálum. Að það verði ekki þessi rosalegi íhaldsás sem að við erum búin að vera að sjá í ýmsum málum undanfarið sem haldi áfram.“