Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, hefur kynnt skýrslu Seðlabanka Íslands um þrautavaralánveitingu bankans til Kaupþings, 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett til að bregðast við og tryggja starfhæft fjármálakerfi.
Í skýrslunni er meðal annars rakið hvernig fjármununum, 500 milljónum evra, var ráðstafað, en fyrir liggur nú, að meirihluti þessarar upphæðar, 260 milljónir evra, er tapaður.
Aðrar inngreiðslur á reikning Kaupþings hjá Deutsche Bank námu samtals 698 milljónum evra
Í skýrslunni segir, að útgreiðslur fjármuna, af reikningi Kaupþings hjá Deutsche Bank, hafi verið í stórum dráttum þessar, næstu daga á eftir að lánið var veitt:
Útgreiðslur til innstæðueigenda í Kaupþing EDGE að fjárhæð 225 m. evra.
Greiðsla til norræns seðlabanka að fjárhæð 170 milljónir evra.
Greiðsla til tveggja erlendra félaga að fjárhæð 50 milljónir evra vegna útgáfu CLN (e. credit linked note) skuldabréfa.
Greiðsla vegna veðkalls í tengslum við endurkaupasamning (REPO) til tveggja evrópskra banka að fjárhæð 47 milljónir evra.
Greiðslur vegna gjaldeyrisviðskipta að fjárhæð 203 m. evra.
Smágreiðslur (lægri en 10 milljónir evra), 4 – 500 talsins, í heild að fjárhæð 114,5 milljónir evra.
„Samtals námu útgreiðslur 810 milljónum evra og staðan á reikningi félagsins í dagslok 8. október 2008 nam 0,6 milljónum evra. Ekki er mögulegt að draga einhlítar ályktanir um ráðstöfun þrautarvaraláns Seðlabankans á grundvelli ofangreindra upplýsinga. Þær sýna þó að á þessum tíma var verið að inna af hendi greiðslur sem ella hefðu líklega leitt til falls bankans. Færslurnar bera með sér að áhlaup er í gangi á innstæður og önnur fjármögnun er að verða erfiðari sem lýsir sér í veðköllum sem væntanlega tengjast veð- og endurkaupasamningum. Samtals nema greiðslur til norræns seðlabanka, útstreymi á innstæðum og greiðslur vegna veðkalla 442 milljónum evra. Vegna greiðslna í tengslum við CLN skuldabréfið má nefna að málið er ennþá til meðferðar hjá dómstólum. Ekki er heldur hægt að draga miklar ályktanir af upplýsingum um fjárhæð gjaldeyrisviðskipta og mótaðila í þeim viðskiptum. Gera má ráð fyrir að þær færslur hafi þegar verið skoðaðar af þar til bærum aðilum,“ segir í skýrslunni.
Lánið var veitt með veði í FIH bankanum danska, sem Kaupþing átti fyrir hrunið.
Í skýrslunni er farið ítarlega yfir það, hvernig reynt var að vernda veðin sem tekin voru fyrir láninu.
Í formála segir Már að nú liggi fyrir að stór hluti lánsins sé tapaður. „Það liggur nú fyrir að Seðlabankinn muni líklega ekki endurheimta mikið meira af 500 milljóna evra láni sínu til Kaupþings en sem nemur 260 milljónum evra. Það liggur einnig fyrir að nýir eigendur FIH eiga eignarhaldsfélag sem tók við af FIH bankanum og takist þeim að selja eignir félagsins nálægt bókfærðu virði, líkt og útlit er fyrir, þá munu þeir fá þokkalegan hagnað af fjárfestingu sinni. Það hefði varla gerst án umtalsverðs stuðnings danskra stjórnvalda við rekstur bankans á árunum eftir 2008. Verði þetta raunin er ósvarað þeirri spurningu hvort og í hvaða mæli þessi hagnaður væri á kostnað danskra eða íslenskra skattgreiðenda eða, eins og eigendurnir hafa haldið fram, hvort það væri vegna þrotlausrar vinnu þeirra sjálfra við að viðhalda verðmætum og skapa ný við erfiðar aðstæður? Þessari spurningu verður ekki svarað hér enda liggur niðurstaðan ekki fyrir og sagan að baki nær langt út fyrir vettvang Seðlabankans. Það er að miklu leyti dönsk saga og gögnin sem þá þyrfti að skoða geymd í Danmörku. Kannski verður sú saga einhvern tíma skrifuð.