Samþykkt var á Alþingi í dag að lækka virðisaukaskatt á tíðarvörur og getnaðarvarnir úr efra þrepi, 24 prósent, niður í neðra, 11 prósent. Með þessu lækkar kostnaður við þessa vöruflokka, sem teljast til nauðsynjarvara fyrir konur. Þessi skattur hefur oft verið nefndur bleiki skatturinn, og er afnámi hans fagnað í tilkynningu frá Pírötum á Facebook.
Breytingin tekur gildi 1. september næstkomandi.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins sem var lagt fram af þingmönnum Pírata, Samfylkingarinnar, Miðflokksins og Flokks fólksins, en málið var fyrst lagt fram af varaþingmanni Pírata, Oktavíu Hrund Jónsdóttur.
„Við gildistöku laganna mun virðisaukaskattur á tíðavörur á borð við dömubindi, túrtappa og álfabikara, lækka úr 24% í 11%, enda eru þetta nauðsynjavörur frekar en munaðarvörur,“ segir í tilkynningu frá Pírötum.