Sex þingmenn nýttu fundarstjórn á Alþingi í dag til þess að gagnrýna seinagang svara frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Þingmennirnir eru þingmenn Miðflokksins, Samfylkingarinnar, Pírata, auk Vinstri grænna.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði með ólíkindum hversu langan tíma ráðherrar taki til að svara fyrirspurnum þingmanna. Oddný bíður svara fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn sem hún lagði fram 29. janúar, auk annarar fyrirspurnar frá því í byrjun apríl. „Það er ekki hægt, herra forseti, að sætta sig við þennan seinagang og ég vil biðja forseta að grennslast líka fyrir um þessar fyrirspurnir.“
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, bað um að fyrirspurnum sínum yrði svarað áður en þingi lyki, en hann bíður enn svara tveggja fyrirspurna.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, sagði: „Ég kem bara hér upp svo það komi ekki út eins og einhver gagnrýni stjórnarandstöðunnar eingöngu því þetta er sameiginlegt hagsmunamál þingsins alls.“ Hann sagði enn fremur að það væri „ótækt að framkvæmdarvaldið og einstaka ráðherrar, sama hvar í flokki þeir eru, sinni ekki sinni lögbundnu skyldu að svara þinginu innan þess frests sem þeim er gefinn [...] Þegar þingið spyr, þá eiga ráðherrar að svara.“
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tók undir mál fyrri þingmanna. Hún lagði fyrirspurn til dómsmálaráðherra í mars síðastliðnum um stöðu Landsréttar, en hefur enn ekki fengið svör.
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, ýtti á eftir skýrslu úr forsætisráðuneytinu sem samþykkt var fyrir 20 vikum en fresturinn er 10 vikur. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði meðalsvar fyrirspurna vera 35 dagar, ekki 15 líkt og reglur segja til um.