Ríkissjóður Íslands gaf í dag út út skuldabréf að fjárhæð 500 milljónir evra, eða sem nemur rúmlega 70 milljörðum króna.
Skuldabréfin bera 0,1 prósent fasta vexti og eru gefin út til fimm ára á ávöxtunarkröfunni 0,122 prósent. Þetta eru hagstæðustu vextir í sögu lýðveldisins, segir í tilkynningu frá stjórnvöldum.
„Fjárfestar sýndu útgáfunni mikinn áhuga og nam eftirspurn um 2,5 milljörðum evra eða ríflega fimmfaldri fjárhæð útgáfunnar. Fjárfestahópurinn samanstendur af seðlabönkum og öðrum fagfjárfestum, aðallega frá Evrópu. Umsjón útgáfunnar var í höndum Barclays, JP Morgan, Morgan Stanley og Nomura,“ segir í tilkynningu frá stjórnvöldum.
Í aðdraganda nýju útgáfunnar gerði ríkissjóður tilboð í útistandandi fjárhæð eldri skuldabréfaútgáfu frá árinu 2014, sem nam upphaflega 750 milljónum evra. Eigendur bréfa að nafnvirði um 60 milljónum evra eða um 8,5 milljörðum, tóku tilboði ríkissjóðs til viðbótar við þær 398 milljónir evra sem keyptar voru til baka í desember 2017.
Þeir fjárfestar sem tóku þátt og vildu, fengu forgang í nýju útgáfunni.
„Þessi útgáfa er staðfesting á þeirri viðurkenningu og trausti á þeim árangri sem við höfum náð í ríkisfjármálum og stjórn efnahagsmála á síðustu árum, en ríkissjóður hefur aldrei tekið lán á hagstæðari vöxtum,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra í tilkynningu „Útgáfan nú er liður í að framfylgja langtímastefnu í lánamálum. Þetta er mikilvægur þáttur í því að bæta markaðsaðgengi innlendra aðila að erlendum lánsfjármörkuðum til lengri tíma og að stórum og fjölbreyttum hópi fjárfesta. Markaðsaðstæður eru hagstæðar um þessar mundir og það er ánægjulegt að festa þessi hagstæðu kjör til næstu fimm ára," segir Bjarni Benediktsson.