Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur boðað formenn þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi til fundar klukkan 16 í dag þar sem búist er við því að samið verði um að yfirstandandi þingi ljúki annað hvort á laugardag eða þriðjudag.
Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur náðst óformlegt samkomulag milli fjögurra flokka í stjórnarandstöðu: Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Flokks fólksins, við ríkisstjórnina um hvaða málum verði hleypt í gegn, hvaða þingmannamál fái framgang og hvaða mál muni bíða. Þar ber helst að nefna að breytingartillaga verður lögð fram um frumvarp um sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlits sem felur í sér að ytra mat verður framkvæmt á áhrifum hennar. Þessi breytingartillaga verður þó ekki til þess að þorri stjórnarandstöðunnar muni styðja málið, og líklegast þykir sem stendur að þingmenn Samfylkingar og Viðreisnar hið minnsta muni greiða atkvæði gegn því. Þá mun frumvarp um Þjóðarsjóð ekki hljóta afgreiðslu á yfirstandandi þingi.
Náist saman á fundinum á eftir mun verða stefnt að því að klára afgreiðslu allra fyrirliggjandi mála á laugardag, en viðmælendur Kjarnans telja þó líklegra að það muni teygja sig inn á þriðjudag. Stór mál eigi enn eftir að fá umræðu. Þar ber helst að nefna nýja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til fimm ára. Í henni hafa verið boðaðar miklar breytingar til að takast á við tugmilljarða króna tekjusamdrátt ríkisins vegna breyttra efnahagsaðstæðna. Hluti stjórnarandstöðunnar hefur þegar gagnrýnt nýju áætlunina harðlega opinberlega og enn á eftir að heyrast frá ýmsum ráðherrum þeirra málaflokka sem þurfa að taka á sig útgjaldaskerðingu vegna breytinganna.
Reynt í síðustu viku
Störfum þingsins átti að ljúka 6. júní síðastliðinn samkvæmt upphaflegri áætlun. Málþóf Miðflokksins gegn þriðja orkupakkanum, sem hefur nú náð að gera umræðu um það mál að lengstu umræðu íslenskrar þingsögu, kom í veg fyrir það ásamt andstöðu annarra í stjórnarandstöðu gegn nokkrum málum, meðal annars áðurnefndri sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlits.
Nú virðist sem að um tvíhliðasamkomulag verði að ræða, annars vegar við fjóra flokka í stjórnarandstöðu og hins vegar við Miðflokkinn.