Niðurstöður nýrrar Gallup könnunar fyrir SA og Seðlabanka Íslands meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins gefa til kynna að umsvif í atvinnulífinu haldi áfram að minnka.
Starfsmönnum gæti fækkaðum 600 á næstu sex mánuðum, samkvæmt því sem svörin í könnuninni gefa til kynna.
Mat stjórnenda á núverandi aðstæðum í atvinnulífinu er tvískipt, þar sem jafn margir telja aðstæður góðar og slæmar, en mun fleiri telja að þær versni frekar en batni á næstunni.
Stjórnendur gera ráð fyrir að verðbólga verði um 3 prósent næsta árið, en hún mælist nú 3,6 prósent og verðbólgumarkmiðið er 2,5 prósent.
Hagspár Hagstofu Íslands og Seðlabanka Íslands gera ráð fyrir að samdráttur verði á þessu ári. Spá Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir 0,4 prósent samdrætti á þessu ári en spá Hagstofu Íslands 0,2 prósent.
Í fyrra var 4,6 prósent hagvöxtur, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, og urðu til 6.500 ný störf frá byrjun árs til loka ársins.