Fjallað er um einangrunarstefnu og verndartollar í nýjustu útgáfu Vísbendingar, sem kom til áskrifenda í dag, en vísbendingar eru komnar fram um að vandamál vegna tollastríðs séu orðin mikil víða, og blikur á lofti um framhaldið.
Jónas Atli Gunnarsson, hagfræðingur, fjallar um einangrunarhyggju og hvað akademískar kenningar hagfræðingar segja okkur um hana.
Í grein sinni fjallar Jónas Atli meðal annars um stefnumörkunina að baki heimsviðskiptum, og hvernig mikil áhersla ráðamanna í Bandaríkjunum, á að vernda ákveðna innlenda framleiðslu, er farin að birtast í daglegu lífi viðskipta.
„Árið 1930 lögðu bandarísku þingmennirnir Reed Smoot og Willis C. Hawley fram frumvarp sem átti að vernda innlenda framleiðslu gegn samkeppni erlendis frá, í ljósi Kreppunar miklu sem þá herjaði á heiminn. Bandaríkjaþing samþykkti frumvarpið, en í því fólst stórhækkun innflutningstolla á yfir 20 þúsund erlendar vörur.
Í fyrstu virtust tollarnir hafa haft tilætluð áhrif, þar sem innlend framleiðsla jókst og laun hækkuðu tímabundið. Hins vegar breyttist efnahagsástandið fljótlega til þess verra þegar önnur ríki komu á fót verndartolla á bandarískum útflutningi og leiddi til þess að bæði inn-og útflutningur frá Bandaríkjunum helminguðust og fátækt jókst.
Í dag eru Smoot-Hawley tollarnir svokölluðu skólabókardæmi um neikvæð áhrif einangrunarhyggju í efnahagsmálum, en flestir hagfræðingar telja þá hafa leitt til þess að Kreppan mikla hafi orðið dýpri og lengri en fyrst var ætlað (1).
Viðvörunarbjöllur víða um heim
Nú, tæpri öld eftir frumvarp Smooth og Hawley og rúmum 7 áratugum af alþjóðavæðingu seinnistríðsáranna, hefur einangrunarhyggjan aftur sótt í sig veðrið í Bandaríkjunum á síðustu misserum. Áherslur Donald Trumps forseta Bandaríkjanna á að vernda innlenda framleiðslu hafa leitt til viðskiptastríðs milli Bandaríkjanna og Kína auk tollahækkana á vörur frá Indlandi, Rússlandi, Evrópusamabandinu, Mexíkó og Kanada. Ásamt því hefur Trump hótað frekari tollalagningu á evrópskar og mexíkóskar vörur, fari löndin ekki eftir settum skilyrðum Bandaríkjanna. Áðurnefnd ríki hafa öll svarað í sömu mynt á síðastliðnum tólf mánuðum og hækkað tolla á bandarískar vörur.
Á meðan Bandaríkin halda sinni einangrunarstefnu til streitu er búist við enn frekari viðskiptahindrunum á Vesturlöndum þegar Bretar segja sig úr Evrópusambandinu. Líkur á útgöngu Breta án samnings hafa farið vaxandi, en með því munu viðskiptakjör ráðast af reglum frá Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) og tollar hækka umtalsvert á inn-og útflutningi frá Evrópulöndum.
Raftæki, matur og málmar
Fjöldi framleiðsluvara sem hafa orðið fyrir barðinu á nýjum verndartollum nemur þúsundum og inniheldur allt frá hrávörum til fullbúna neysluvara. Frá því í mars í fyrra hefur Bandaríkjastjórn nú fjórum sinnum staðið að tollahækkunum á kínverskum vörum, helst á raftækjum, húsgögnum og bílahlutum, en einnig á efnavörum og innfluttu grænmeti. Kínverjar hafa svarað með tollum á bandarískum bílum og flugvélum, auk ýmissa landbúnaðarvara. Þar að auki hafa Bandaríkin kynnt almenna tolla á innfluttum þvottavélum, sólarrafhlöðum, áli og stáli, sem Evrópusambandið, Kanada og Mexíkó hafa svarað með tollum á áðurnefndum málmum auk ýmissa matvæla og Harley-Davidson mótorhjóla frá Bandaríkjunum.
Sömuleiðis má vænta hærri tolla á innflutningi frá Evrópusambandinu til Bretlands ef útgöngusamningur Breta úr sambandinu liggur ekki fyrir í haust. Samkvæmt BBC myndu tollar á landbúnaðarvörum og bílum hækka umtalsvert, en hagsmunasamtök beggja atvinnugreina þar í landi hafa varað við þeirri þróun,“ segir meðal annars í greininni.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.