Arion banki hf. hefur samið við dreifðan hóp fjárfesta um kaup þeirra á öllum hlut bankans í Stoðum hf.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum, en ekki er nánar tilgreint hverjir þessir fjárfestar eru sem keyptu hlutinn né hversu mikið var greitt fyrir hann.
Arion banki hefur haft hlutinn, sem nam um 19 prósent af útistandandi hlutafé Stoða, til sölu um alllangt skeið enda um eign í óskyldum rekstri að ræða.
Stoðir eru fjárfestingarfélag og nema eignir félagsins um 23 milljörðum króna, að því er segir í tilkynningu frá Arion banka. Helstu eignir Stoða eru eignarhlutir í Símanum hf., TM hf. og Arion banka.
Hagnaður Stoða á síðasta ári var 1,1 milljaður króna, og nam eigið fé félagsins 17,5 milljörðum króna, en skuldir félagsins eru nær engar, eða 6,3 milljónir.
Landsbankinn, sem er 99 prósent í eigu íslenska ríkisins, á 15,24 prósent í Stoðum og Íslandsbanki, sem er að öllu leyti í eigu ríkisins, á 1,96 prósent.