Um helmingi rúma á einni af þremur bráðageðdeildum Landspítalans verður lokað frá og með deginum í dag og munu þau standa lokuð næstu fjórar vikurnar. Þetta er neyðarráðstöfun sem gripið er til vegna skorts á fé og fagfólki, einkum hjúkrunarfræðingum, á spítalanum. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Ekki forsvaranlegt að geðheilbrigðisþjónusta sé skert ár eftir ár
Á deildinni 33A eru rúm fyrir 31 sjúkling en frá og með deginum í dag og fram yfir Verslunarmanna helgi verða plássin 16. María Einarsdóttir, framkvæmdastjóri geðviðs Landspítalann, segir í samtali við Morgunblaðið að sjálfvígshætta sé algengasta ástæða þess að fólk er lagt inn á deildina. María segir jafnframt að þetta sé líklega tíunda sumarið í röð þar sem fækka þurfi rúmum á deildinni. „Í fyrra þurftum við að loka í sex til sjö vikur og við höfum fundið það, þegar við höfum opnað öll rúmin aftur, að það er uppsöfnuð þörf, því þá leita gríðarlega margir til okkar,“ segir María.
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir í samtali við Morgunblaðið að það sé ekki forsvaranlegt að geðheilbrigðisþjónusta sé skert ár eftir ár. Hún segir hana koma fólki með geðsjúkdóma afar illa og ekki í neinu samræmi við yfirlýsta stefnu yfirvalda um mikilvægi góðrar geðheilbrigðisþjónustu.
Hún bendir á að fólk veikist ekkert síður á sumrin en á öðrum tíma ársins. Ýmsir hátíðisdagar og frí geti oft erfiðari en aðrir tímar ársins fyrir fólk með geðraskanir. Hún ítrekar að stjórnmálamenn þurfi að standa við loforð sín og tryggja stöðugt fjármagn til geðheilbrigðismála.