„Ég veit ekki til þess að aðilar hafi sýnt bönkunum áhuga. Bankasýsla ríkisins heldur á eignarhlutum ríkisins í bönkunum og mér er ekki kunnugt um að nokkur aðili hafi lýst yfir áhuga á að kaupa bankana í heilu lagi,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, í samtali við Morgunblaðið í dag.
Vísar hann í máli sínu til söluferlis Landsbanka og Íslandsbanka, en til hefur staðið að selja bankana í nokkur ár. Íslenska ríkið á Íslandsbanka 100 prósent og um 99 prósent hlut í Landsbankanum.
Að sögn Bjarna er þess beðið að tillaga um sölu bankanna berist frá Bankasýslu ríkisins.. „Við bíðum þess að það komi tillaga frá Bankasýslu ríkisins um að hefja söluferli bankanna. Sú tillaga hefur ekki enn borist. Ferlið fer ekki af stað fyrr en tillagan hefur verið lögð fram og það er erfitt að segja til um hvenær það verður,“ segir Bjarni við Morgunblaðið.
Í blaðinu er bent á að nú styttist í innleiðingu nýrrar tilskipunar Evrópusambandsins, PSD2, en hún gerir ráð fyrir að greiðslumiðlun muni breytast umtalsvert með meiri möguleikum fyrir fjártæknifyrirtækjum, en talið er að það geti breytt fjármálakerfum.
Eigið fé Íslandsbanka og Landsbankans er samtals um 410 milljarðar þessi misserin, og heildareignir nema rúmlega tvö þúsund milljörðum króna, og liggja að mestu leyti í útlánum til íslenskra heimila og fyrirtækja.