Kaupsamningum á fasteignamarkaði fækkaði um 20,4 prósent í júní, miðað við maí mánuð, og um 23,8 prósent sé horft til sama mánaðar í fyrra. Þá minnkaði veltan í viðskiptunum um 11,2 prósent.
Í júni var 623 kaupsamningum þinglýst, velta nam 32,4 milljörðum króna og var meðalupphæð á hvern kaupsamning 52 milljónir króna, samkvæmt nýjum tölum Þjóðskrár.
Fjöldi þinglýstra kaupsamninga um fasteignir við sýslumannsembættin á höfuðborgarsvæðinu í júní 2019 var 496. Heildarvelta nam 29,3 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 59 milljónir króna. Viðskipti með eignir í fjölbýli námu 18,1 milljarði, viðskipti með eignir í sérbýli 6,5 milljörðum og viðskipti með aðrar eignir 4,7 milljörðum króna.
Fasteignaverð hefur staðið í stað, undanfarin misseri, en raunverð á fasteignamarkaði - það er verð að teknu tilliti til verðbólgu - hefur hækkað um minna en 1 prósent á undanförnum 12 mánuðum. Sé horft til síðustu sex mánaða þá hefur verðið lækkað um tvö prósent.
Búist er við því að þúsundir nýrra íbúða muni koma út á fasteignamarkað á næstu misserum, einkum litlar og meðalstórar. Þetta gerist á sama tíma og verulega hefur dregið úr umsvifum í efnahagslífinu, eftir fall WOW air en hagspár gera ráð fyrir samdrætti í landsframleiðslu á þessu ári upp á 0,2 til 0,4 prósent.
Verðbólga mælist nú 3,3 prósent, en meginvextir Seðlabanka Íslands er nú 3,75 prósent.