Bretland var stærsta útflutningsland sjávarafurða í fyrra með um 15,3 prósent hlutdeild af heildarútflutningi.
Útflutningsverðmæti sjávarafurða árið 2018 var 239,8 milljarðar króna, og nam því útflutningur til Bretlands 36,6 milljörðum króna.
Næst mestur var útflutningur til Frakklands, en hann var 11,3 prósent af heildinni, eða sem nemur rúmlega 27 milljörðum króna. Þar á eftir komu Spánn, Noregur og Bandaríkin með tæplega 10 prósent hlut af heildinni, eða sem nemur um 23,9 milljörðum til hvers lands.
Aukning varð í útflutningsverðmæti sjávarafurða í fyrra, og var aukningin 21,7 prósent.
Flutt voru út tæplega 671 þúsund tonn af sjávarafurðum sem er 61 þúsund tonni meira en árið áður.
Frystar sjávarafurðir voru 46,7 prósent af útflutningsverðmætinu, ísaðar afurðir voru 24,9 prósent og mjöl/lýsi um 14,3 prósent. Af einstökum tegundum var verðmæti ísaðra þorskafurða mest eða tæpir 39,4 milljarðar króna og næst var verðmæti frysts þorsks um 35,3 milljarðar króna.