Fossar Markaðir hf. er nú þriðji stærsti hluthafi Arion banka með 8,01 prósent eignarhlut, samkvæmt uppfærðum lista yfir stærstu hluthafa Arion banka.
Ekki kemur fram hvort félagið haldi á hlutnum fyrir einhverja aðra, svo sem viðskiptavini félagsins.
Virði hans, miðað við markaðsvirði Arion banka við lokun markaða í gær, er 11,2 milljarðar króna.
Stærsti eigandi Arion banka, samkvæmt uppfærðum lista yfir stærstu hluthafa á vef Arion banka, er Taconic Capital Advisors UK LLP með 23,53 prósent hlut.
Och-Ziff Capital Management er næst stærsti hluthafinn með 9,25 prósent hlut.
Hlutur Stoða er 4,8 prósent og þá hefur Lífeyrissjóður verslunarmanna bæst inn á lista yfir stærstu hluthafa, og er nú með 2,73 prósent hlut.
Í lok fyrsta ársfjórðungs var eigið fé bankans 193 milljarðar króna, og heildareignir rúmlega 1.200 milljarðar.
Benedikt Gíslason tók við sem bankastjóri Arion banka 1. júlí, og aðstoðarbankastjóri var skömmu síðar ráðinn Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, sem áður stýrði fyrirtækjasviði Kviku banka. Benedikt og Ásgeir Helgi hafa verið samstarfsmenn áður, og störfuðu meðal annars saman í framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta árið 2015.
Hluthafafundur hefur verið boðaður 9. ágúst og verða þá kosnir tveir nýir stjórnarmenn, og breytingar gerðar á tilnefningarnefnd, samkvæmt boðun til fundarins og tilkynningu um hana til kauphallar.