Mikill vöxtur hefur verið í útflutningi á laxi til Kína frá Noregi og hefur útflutningur á makríl jafnframt aukist en Norðmenn hafa selt sjávarafurðir fyrir 51,2 milljarð noskrar króna, eða 755 milljarða íslenskra króna, fyrstu sex mánuði ársins sem er metsala á hálfu ári. Þetta er 4,4 milljörðum meiri sala en á fyrri helmingi 2018. Fiskifréttir greina frá.
Gengismál hafa einnig haft áhrif á auknar tekjur, samkvæmt fréttinni en gengi norsku krónunnar hefur verið veikt gagnvart evru og dollar sem hefur skilað sér í hærri verðum í útflutningi á norskum sjávarafurðum.
Í fréttinni kemur fram að það sem af er ári hafi vöxtur verið jafnt í útflutningsverðmætum og útflutningsmagni á ferskum laxi til Kína. Samtals nemi þessi útflutningur 12.130 tonnum á fyrstu sex mánuðum ársins. Það sé meira en flutt var út til Kína af ferskum laxi allt árið 2018. Þá nam útflutningurinn 12.000 tonnum.
Kína í 7. sæti yfir stærstu viðskiptalönd Íslands í sjávarútvegi
Mikil aukning hefur orðið í útflutningi til Kína frá Íslandi af tíu stærstu viðskiptalöndum í sjávarútvegi en útflutningur hefur ríflega tvöfaldast í krónum talið á tímabilinu 2014 til 2018. Á tímabilinu 2010 til 2013 var Kína í 16. sæti yfir stærstu viðskiptalönd í sjávarútvegi en árið 2015 fór það í 15. sæti, 2016 í 9. sæti, 2017 í 8. sæti og 2018 í 7. sæti.
Fríverslunarsamningur við Kína virðist því hafa haft jákvæð áhrif á viðskipti með sjávarafurðir en hann tók gildi 1. júlí 2014. Tilgangur samningsins var að liðka fyrir viðskiptum á milli landanna en hann nær aðeins til vöruviðskipta. Samningurinn felur í sér niðurfellingu tolla á flestum útflutningsvörum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, meðal annars um uppruna samkvæmt upprunareglum sem skilgreindar eru í samningnum.
Vilja styrkja sölu- og markaðsstarf í Asíu
Fram kom í fréttum í síðustu viku að stjórn HB Granda hf. hefði samþykkt samninga um kaup á sölufélögum í Asíu og leggja þá fyrir hluthafafund til samþykktar. Félagið gerði kauptilboð í félögin að fjárhæð 31,1 milljón evra eða 4,4 milljörðum króna.
Eigandi félaganna gekk að tilboðinu og er tilgangurinn að styrkja sölu- og markaðsstarf félagsins á alþjóðamörkuðum, einkum í Asíu.
Nafni félagsins verður breytt í Brim og Brim Seafood. Samkvæmt tilkynningu frá félaginu mun nýtt vörumerki og nafn þjóna tilgangi félagsins vel sem sé að markaðssetja og selja afurðir sem félagið veiðir og vinnur á verðmætum alþjóðamörkuðum.