Tilfellum verka þar sem asbesteiningar eru fjarlægðar úr byggingum fer ekki fækkandi en á árinu 2018 voru veitt 35 leyfi til slíks niðurrifs. Þetta kemur fram í umfjöllun Læknablaðsins um asbest og áhrif þess á heilsu Íslendinga.
Í greininni segir að gera verði ráð fyrir að fjöldi þessara verkefna muni aukast þegar kemur að stórviðhaldi mannvirkja eftirstríðsáranna fram til 1980. Grundvallaratriði við þessa vinnu sé að tryggja réttan hlífðarbúnað og notkun á réttum öndunargrímum við verkið.
Verkefni vegna lauss asbests eru fá og hafa flest tengst veru Bandaríkjahers hér á landi. Vinna vegna slíks krefst mjög sérhæfðrar þjálfunar vegna mikillar hættu á rykmengun en asbesti ber að farga á viðurkenndum förgunarstöðum, samkvæmt greininni.
Rykið er hættulegt heilsunni
Asbest eru þráðlaga kristölluð sílikat-steinefni sem hafa mismunandi byggingu og eiginleika. Asbestþræðir eru mjög slitsterkir og þola mjög mikinn hita og því var algengt að asbest væri notað sem brunavarnarefni, hitaeinangrun og þar sem mikill hiti er notaður.
Á Vísindavefnum kemur fram að asbest brotni mjög auðveldlega niður og myndi fínsallað asbestryk. Rykið líkist helst litlum nálum, frekar en kornum, sem gerir að verkum að það festist í lungum við innöndun. Loftið sem fólk andar að sér inniheldur yfirleitt örlítið af asbesti, en ekki þó í því magni að það valdi því skaða.
Asbest hefur verið bannað á Íslandi frá 1983 en enn er mikið magn af því í byggingum, skipum og í hitaveituleiðslum. Innflutningur á Íslandi var mikill árin fyrir bann en minnkaði svo ört og er nánast enginn í dag. Við vinnu með asbest myndast nálar- eða þráðlaga asbestryk. Það er þetta ryk sem er hættulegt heilsunni.
Biðtími frá því að komast í tæri við asbest þangað til sjúkdómurinn lætur á sér kræla getur verið allt að 40 ár. Asbest berst í lungun við innöndun og getur valdið asbestveiki sem er lungnatrefjunarsjúkdómur með hæga framþróun. Asbest getur einnig valdið góðkynja fleiðruvökva, fleiðruskellum og dreifðum fleiðruþykknunum. Asbest er líka krabbameinsvaldandi. Algengast er lungnakrabbamein en asbest er áhættuþáttur fyrir krabbameinum í fleiri líffærum. Illkynja miðþekjuæxli er algengast í lungnafleiðru en getur sést í fleiri himnum. Nýgengi þessara æxla er hátt á Íslandi og er enn vaxandi hjá körlum. Dánartíðni er hæst á Íslandi af Evrópulöndum, samkvæmt grein Læknablaðsins.
200 verk á síðastliðnum 20 árum
Í dag er öll vinna við asbest bönnuð nema vegna viðhaldsverkefna þar sem verið er að fjarlægja asbest. Samkvæmt Læknablaðinu er umfang þessarar vinnu mikið en allir sem koma að slíkri vinnu þurfa að sækja námskeið um hvernig þetta er gert með öruggum hætti. Flestir þeirra sem sótt hafa slík námskeið hafa gert það í tengslum við tiltekin verk.
Þá kemur fram í Læknablaðinu að í dag hafi fleiri en 900 einstaklingar sótt slík námskeið, sem veitir rétt til að fjarlægja asbesteiningar, en gera megi ráð fyrir að um sé að ræða yfir 200 verk á síðastliðnum 20 árum. Þessi verkefni hafi verið alls staðar á landinu, í öllum tegundum bygginga og mannvirkja, opinberum sem einkaheimilum sem flest hver hafa verið reist á árunum eftir stríð fram til 1980.