Fulltrúar Orkunnar okkar afhentu Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, áskorun um þriðja orkupakkann í dag. Samtökin skora á forsetann að staðfesta ekki upptöku þriðja orkupakkans nema að sameiginlega EES-nefndin hafi veitt Íslandi undanþágu frá innleiðingu eða að íslenska þjóðin hafi fallist á að undirgangast skuldbindingar orkupakkans í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu samtakanna
Í tilkynningunni segir að forsetinn hafi tekið við bréfi samtakanna með áskoruninni þar sem helstu þættir málsins eru raktir og hugsanlegar afleiðingar innleiðingu orkupakkans. Auk þess afhentu samtökin Guðna umsagnir frá liðnu vori um málið ásamt nýlegri gögnum um málið. Þar á meðal er skýrsla samtakanna um áhrif inngöngu Íslands í orkusamband ESB og minnisblöð Arnars Þórs Jónssonar, héraðsdómara, og Tómasar Jónssonar, hæstaréttarlögmanns.
„Úr því sem komið er, sjá samtökin Orkan okkar því ekki önnur úrræði í stöðunni en að skora á forseta Íslands að bíða með að staðfesta þriðja orkupakkann inn í EES-samninginn þar til Ísland hefur fengið undanþágu frá innleiðingu hans eða þjóðin hefur í þjóðaratkvæðagreiðslu fallist á þær skuldbindingar sem í orkupakkanum felast,“ segir í bréfi samtakanna.
Rætt um þriðja orkupakkann á Alþingi í dag
Alþingi kom saman á ný í morgun að loknu sumarleyfi til þess að ræða frumvörp og þingsályktunartillögur er varða þriðja orkupakkann og breytingu á raforkulögum. Um er að ræða svokallaðan þingstubb en samkomulag um þinglok náðist þann 18. júní síðastliðinn. Það gerðist eftir að saman náðist milli ríkisstjórnarflokkanna og Miðflokksins um hvernig haldið yrði á frekari umfjöllun um þriðja orkupakkann.
Til stendur að atkvæðagreiðsla um málið fari fram næsta mánudag og verður þá þingi frestað að nýju. Nýtt þing kemur saman þann 10. september næstkomandi.