Framsóknarflokkurinn ætlar að fylgja því fast eftir að ákvæði um þjóðareign á auðlindum verði sett í stjórnarskrá og vill að ríkisfyrirtæki sem fara með mikilvæga innviði verði áfram í eigu þjóðarinnar.
Sameiginlegur fundur Landsstjórnar og þingflokks Framsóknarflokksins, sem fram fór um helgina, samþykkti ályktun þess efnis að það sé stefna flokksins að „margir mikilvægustu innviðir samfélagsins séu í eigu þjóðarinnar og þannig njótum við öll ágóðans af þeim. Um er að ræða innviði eins og Landsvirkjun, Landsnet, RARIK og Flugstöð Leifs Eiríkssonar svo einhverjir séu nefndir.“
Þá samþykkti fundurinn einnig þá „höfuðáherslu“ flokksins að auðlindir séu í þjóðareign. „Því mun Framsóknarflokkurinn fylgja því fast eftir á kjörtímabilinu að slíkt ákvæði verði sett í stjórnarskrá landsins.“
Þá samþykkti fundurinn að setja það í forgang að flutningskostnaður raforku verði jafnaður á kjörtímabilinu,. Það sé ein af mikilvægustu byggðaaðgerðum sem ráðast þurfi í.
Ekki unnið að sölu flugstöðvar
Möguleg sala á ríkisfyrirtækjum hefur verið umtalsvert til umfjöllunar að undanförnu. Þannig hafa margir andstæðingar innleiðingar þriðja orkupakkans rökstutt þá andstöðu með ótta við að opinber orkufyrirtæki gætu verið seld.
Í vikunni greindi Morgunblaðið svo frá því að þreifingar hefðu átt sér stað við ríkið um sölu á Flugstöð Leifs Eiríkssonar við Innviði fjárfestingar slhf. Kjarninn sendi í kjölfarið fyrirspurn á forsætisráðuneytið um málið og í svari sem þaðan barst sagði: „Ekki er unnið að undirbúningi á sölu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og engin ákvörðun hefur verið tekin um að hefja slíkan undirbúning.“