Píratar tapa 3,4 prósentustigum af fylgi milli kannana Gallup. Fylgi þeirra mælist nú 9,3 prósent en var 12,7 prósent í lok júlí. Frá þessu var greint í kvöldfréttum RÚV.
Það er minnsta fylgi sem Píratar hafa mælst með á kjörtímabilinu í könnunum fyrirtækisins og í fyrsta sinn sem það fer niður fyrir tveggja stafa tölu frá því fyrir haustkosningarnar 2017 þegar flokkurinn fékk 9,2 prósent atkvæða.
Fylgi Pírata virðist að mestu vera að fara til Samfylkingar sem bætir við sig 1,8 prósentustigi frá því í júlí og mælist nú með 15,5 prósent fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist flokka stærstur á Íslandi en 21,7 prósent aðspurðra sagði að þeir myndu kjósa hann ef kosið væri nú. Það er nánast sama fylgi og flokkurinn mældist með í júlí. Hinir stjórnarflokkarnir tveir eru einnig á svipuðum slóðum og þeir voru fyrir mánuði síðan. Fylgi Vinstri grænna hefur hækkað úr 12,0 prósentum í 12,8 prósent og fylgi Framsóknarflokksins dalað úr 8,5 í 8,3 prósent.
Miðflokkurinn heldur áfram að bæta við sig fylgi samkvæmt könnunum og mælist nú með 13,4 prósent fylgi. Það myndi gera hann að þriðja stærsta flokki landsins er kosið yrði í dag.
Viðreisn tapaðar lítillega á milli mánaða og myndi fá 11,4 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag.
Flokkunum á þingi myndi fækka um einn ef niðurstaða nýjustu könnunar Gallup yrði. Flokkur fólksins mælist með 3,8 prósent fylgi sem myndi ekki duga flokk Ingu Sæland til að ná sæti á þingi. Sósíalistaflokkurinn er sömuleiðis ekki með nægjanlegt fylgi til að ná yfir þann þröskuld en 3,7 prósent segja að þeir myndu kjósa þann flokk.
Um er að ræða netkönnun sem Gallup gerði dagana 29. júlí til 1. september 2019. Heildarúrtaksstærð var 8.423 og þátttökuhlutfall var 47,2 prósent. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,2-1,4 prósent. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.