Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í gær í ríkisstjórn nýtt frumvarp um lækkun á bankaskatti. Samkvæmt því verður hinn sérstaki bankaskattur lækkaður úr 0,376 prósent af heildarskuldum þeirra fjármálafyrirtækja sem greiða hann í 0,145 prósent.
Frumvarpið hafði áður verið lagt fram í apríl síðastliðnum og þegar gengið til efnahags- og viðskiptanefndar. Þá átti fyrsta skref lækkunarinnar að taka gildi á næsta ári, 2020.
Þegar fjármálaáætlun var breytt í júní var hins vegar ákveðið að fresta lækkun bankaskattsins um eitt ár. Hann mun því ekki byrja að lækka á næsta ári, heldur árið 2021, og vera komin til framkvæmda að öllu leyti árið 2024. Þær breytingar voru gerðar vegna breyttra aðstæðna í íslensku efnahagslífi, aðallega vegna gjaldþrots WOW air og loðnubrests.
Telja skattinn rýra samkeppnishæfni
Samtök fjármálafyrirtækja, og æðstu stjórnendur viðskiptabankanna, hafa kvartað mikið undan því á undanförnum árum að bankaskatturinn rýrir samkeppnishæfni þeirra, bæði á innanlandsmarkaði þar sem þeir keppa við lífeyrissjóði um að veita landsmönnum húsnæðislán, en ekki síður í alþjóðlegri samkeppni við erlenda banka sem hafa tryggt sér viðskipta margra stórra íslenskra fyrirtækja sem stunda alþjóðlega starfsemi á undanförnum árum. Þessir aðilar, lífeyrissjóðirnir íslensku og bankar frá hinum Norðurlöndunum, þurfa ekki að greiða bankaskatt og geta því, að sögn íslensku bankanna, boðið mun skaplegri lánakjör.
Í Hvítbók um fjármálakerfið, sem birt var í desember í fyrra, var sérstaklega fjallað um að það gæti verið æskilegt að breyta skattstofni bankaskatts.
Tímaramma breytt vegna samdráttar
Í apríl var svo lagt fram frumvarp þess efnis. Í greinargerð með því frumvarpi var vitnað til þess að í stjórnarsáttmála væri vikið að því að unnið verði að frekari skilvirkni í fjármálakerfinu með það að leiðarljósi að lækka kostnað neytenda. Nú hefur það frumvarp verið uppfært í samræmi við nýja fjármálaáætlun og lækkun á bankaskatti, sem á að lækka tekjur ríkissjóðs um 18 milljarða króna á fjórum árum, mun nú hefjast 2021 en ekki á næsta ári. Það þýðir að lækkunin kemur fyrst til framkvæmda á því ári sem þingkosningar eru næst fyrirhugaðar.
Íslenska ríkið er stærsti eigandi fjármálafyrirtækja á Íslandi, og ræður yfir á bilinu 70 til 80 prósent af þeirri þjónustu sem í boði er. Ríkið á Íslandsbanka að öllu leyti, og ríflega 98 prósent hlut í Landsbankanum, sem jafnframt er stærsti bankinn á markaðnum.