Hildur Sverrisdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi þingmaður og borgarfulltrúi hans, hefur verið skipuð formaður þingmannanefndar sem mun fjalla um málefni útlendinga og innflytjenda á málefnasviði dómsmálaráðherra og eftir atvikum félags- og barnamálaráðherra og menntamálaráðherra. Dómsmálaráðherra kynnti skipun nefndarinnar á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Nefndin mun endurskoða lög um útlendinga
„Nefndin skal vera sameiginlegur vettvangur þingmanna og fulltrúa ráðherra og ráðuneyta fyrir upplýsingaöflun og upplýsingaskipti til að dýpka skilning þingmanna á málaflokknum. Nefndin hefur jafnframt það hlutverk að vera til samráðs um framkvæmd útlendingalaga og eftir atvikum endurskoðun laga og reglugerða á málefnasviðinu með mannúðarsjónarmið og skilvirka þjónustu til grundvallar,“ segir í tilkynningunni frá dómsmálaráðuneytinu.
Hildur var ráðin aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og síðar dómsmálaráðherra, í janúar 2018.
Hildur er fædd árið 1978. Hún er með meistarapróf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og lögmannsréttindi. Hún hefur meðal annars starfað sem lögfræðingur hjá fjölmiðlafyrirtækinu 365 og sem framkvæmdastjóri V-dags gegn kynferðisbrotum. Hildur skrifaði um árabil bakþanka í Fréttablaðið og ritstýrði jafnframt bókinni Fantasíur.