Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, sagði í stefnuræðu sinn í kvöld, að ríkisstjórnin ætli sér að flýta skattkerfisbreytingum í þágu tekjulágra. Breytingarnar, yfir í þriggja þrepa kerfi, eigi nú að innleiða á tveimur árum í stað þriggja. „Þessi breyting mun auka jöfnuð og bæta kjör þeirra sem verst standa. Þegar samningum lauk í vor lögðu fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar áherslu á að þessum breytingum yrði flýtt og því leggur ríkisstjórnin nú til að þær verði innleiddar á tveimur árum en ekki þremur eins og gert var í fjármálaáætlun. Þetta skiptir máli til að jafna kjörin í landinu,“ sagði Katrín meðal annars í ræðu sinni.
Hún lagði áherslu á að samtal ríkisstjórnar, og stjórnvalda, við verkalýðshreyfinguna væri nú komið í betri farveg en áður. Í Lífskjarasamningunum hefði verið áhersla lögð á að skapa aðstæður fyrir viðspyrnu, meðal annars með vaxtalækkunum. Þá sagði Katrín að ríkisstjórnin legði áherslu á að efla félagslegan stöðugleika, og að undirbúa komandi kynslóðir fyrir miklar breytingar í atvinnulífi samhliða tæknibreytingum.
„Ég hef væntingar til þess að samtal stjórnvalda og vinnumarkaðar sé komið í skýran farveg sem mun hafa jákvæð áhrif til framtíðar á efnahagslegan og félagslegan stöðugleika,“ sagði Katrín.
Hún nefndi enn fremur að það yrði að fylgjast grannt með því aukin tæknibreytingarnar myndu skila sér í betri lífskjörum fyrir alla, meðal annars með styttri vinnuviku og réttlætri dreifingu verðmæta.
Katrín sagði umhverfismálin, og þá einkum loftslagsmálin, vera stærstu áskorunina sem samfélagið stæði frammi fyrir. Hún sagði mikilvægt að stjórnmálamenn og stéttarfélög tækju höndum saman, til að leiða breytingar fram, til að vinna gegn slæmum áhrifum vegna mengunar. Sagðist hún stolt af því að ríkisstjórn hennar hefði lag fram fyrstu fjármögnuðu áætlunina til að berjast gegn loftslagsvánni. „En við getum ekki ætlast til að almenningur sjái alfarið um baráttuna. Stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, atvinnurekendur og samtök launafólks verða að draga vagninn. Samstillt átak er forsenda þess að við náum raunverulegum árangri,“ sagði Katrín.