„Þó það sé vissulega ánægjulegt að verkalýðshreyfinginn hafi knúið fram skattalækkun á lágar og meðaltekjur er galið að láta hana ganga upp allan stigann.“
Þetta sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra, í kvöld, þegar þingveturinn hófst formlega.
Logi sagði að það sýndi sig hvaða forgangsröðun ætti upp á pallborðið hjá ríkisstjórninni, að frekar væri hugsað um þá ríku en velferðarkerfið. „Í stað þess að láta ofsaríkt fólk leggja meira af mörkum er gerð aðhaldskrafa á velferðarþjónustuna sem er látin bera uppi niðursveiflu í kólnandi hagkerfi. Tekjulægra fólk sem ekki naut uppgangs síðustu ára gæti lent í meiri erfiðleikum - en þau 5% prósent landsmanna sem eiga jafnmikið og hin 95% prósentin sigla lygnari sjó,“ sagði Logi.
Þá sagði hann að ríkisstjórnarflokkarnir, Framsókn, Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur, væru fremur að þjóna sérhagsmunum en almannahagsmunum, í stefnu ríkisstjórnarinnar. „Forsenda efnahagslegra framfara og góðs samfélags er að sérhverjum einstaklingi verði tryggð skilyrði til að rækta hæfileika sína og nýta í þágu eigin velferðar, samfélags síns og komandi kynslóða. Til þess þurfa þó leikreglurnar að þjóna almannahagsmunum, ekki sérhagsmunum fárra.“
Logi gerði einnig þátttöku í alþjóðasamstarfi að umtalsefni, og sagði það nauðsynlegt Ísland væri virkari þátttakandi í því, til að tryggja öryggi og lífsgæði til framtíðar litið. „Við þurfum nýja stjórnarskrá og þáttöku í fjölþjóðasamstarfi sem getur skilað okkur auknu öryggi, ríkari lífsgæðum, fjölbreyttni og víðari sjóndeildarhring; svo ekki sé talað um stöðugri gjaldmiðil.“
Hann sagði framtíðina byggja á virkjun hugvitsins. Þar þyrftu stjórnvöld að ganga lengra, og virða vilja fólksins. „Hugvit er okkar verðmætasta auðlind og sú eina sem er óþrjótandi. Nýleg umræða um aðra auðlind, orkuna, öskrar á að vilji þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá verði virtur. Og þótt hæstvirtur forsætisráðherra vilji það ef til vill, er rétt að minna hann á að hún myndaði ríkisstjórn með tveimur flokkum sem börðust hatrammlega gegn nýrri stjórnarskrá fyrir fáeinum árum og ósennilegt að þeim hafi snúist hugur.“