Áformað er að sú fjármögnun komi að stærstum hluta frá þýska fyrirtækinu PCC SE sem á 86,5 prósent hlut í PCC BakkaSilicon. Eignir PCC BakkaSilicon námu um 360 milljónum dala í lok síðasta árs og var eigið fé félagsins um 40 milljónir dala.
Fjármögnun yrði að öllum líkindum annaðhvort í formi nýs hlutafjárs eða hluthafaláns, samkvæmt heimildum Markaðarins. Fyrirtækið hefur nú þegar lagt kísilverinu til aukið fé í formi hluthafaláns að fjárhæð 34 milljónir dala sem var veitt í fyrra.
Vonir um að hægt verði að starfrækja ofnanna í ár
Framkvæmdir við verksmiðjuna hófust fyrst í júní árið 2015 og á árleg framleiðsla að nema um 32 þúsund tonnum. Starfsemi kísilversins var síðan formlega gangsett í maí í fyrra en vandræði í hreinsivirkni verksmiðjunnar hafa valdið því að slökkva hefur þurft á ljósbogaofnunum en vonast er til þess að hægt verði að byrja að starfrækja þá á fullum afköstum fyrir árslok 2019.
Íslenskir lífeyrissjóðir, þar á emaðl Gildi, Stapi og Birta, ásamt Íslandsbanka, fara með 13,5 prósenta hlut í kísilveri PCC á Bakka í gegnum samlagshlutafélagið Bakkastakk. Auk þess hafa sjóðirnir fjárfest í breytanlegu skuldabréfi félagsins að fjárhæð 62 milljónir dala. Samtals nemur fjárfesting lífeyrissjóðanna og bankans í kísilverinu, bæði í forgangshlutafé og breytanlegu skuldabréfi, um tíu milljörðum króna.
Í umfjöllun Markaðarins segir að einnig sé til skoðunar að fresta tímabundnum vaxtagreiðslum af breytanlegum skuldabréfinu til lífeyrissjóða til að bæta sjóðsstreymi félagsins til skamms tíma. Samkvæmt Markaðinum var skuldabréfið, sem var bókfært á nærri 9,5 milljarða króna í árslok 2018 í reikningum Bakkastakks, er með breytirétti og ber 8,5 prósenta vexti. Miðað við það nema árlegar vaxtagreiðslur af bréfinu því um 800 milljónum króna.
Þá hefur auk þess verið rætt við lífeyrissjóðina og Íslandsbanka um að auka við fjármagn í rekstrinum ásamt PCC SE en til stendur að gera hluthöfum Bakkastakka nánar grein fyrir stöðunni á fundi þriðjudaginn 17. september næstkomandi.