Í lok ágúst síðastliðins voru 16,98 prósent allra hlutabréfa í félögum sem skráð eru í Kauphöll Íslands veðsett. Það er hæsta hlutfall veðsettra hlutabréfa sem sést hefur frá því að íslenskur hlutabréfamarkaður var endurreistur á árunum eftir bankahrunið.
Upphæð veðsettra hlutabréfa náði sínu hæsta marki eftir bankahrunið í júlí síðastliðnum, þegar markaðsvirði veðsettra hluta var 177,4 milljarðar króna. Á einu ári hafði markaðsvirði veðsettra hlutabréfa aukist um 64,2 milljarða króna, eða um 56,7 prósent.
Markaðsvirði þeirra bréfa sem voru veðsett dróst lítillega saman í krónum talið milli júlí og ágústmánaða, alls um fjóra milljarða króna, en heildarmarkaðsvirði þeirra félaga sem eru skráð í Kauphöll Íslands gerði það líka. Það var 1.096 milljarðar króna í lok júlí en 1.021 milljarðar króna í lok ágúst. Hlutfall veðtöku jókst því úr 14,84 prósentum í 16,98 prósent, og hefur ekki verið hærra eftir hrun.
Þetta kemur fram í markaðstilkynningu frá Kauphöll Íslands sem birt var í dag.
Mikil veðsetning á árunum fyrir hrun
Veðsetning hlutabréfa var mjög algeng á árunum fyrir hrun, og bjó meðal annars til mikla kerfislega áhættu hérlendis. Stór fjárfestingarfélög, sem áttu meðal annars stóra hluti í bönkum, fengu þá lánaðar háar fjárhæðir með veði í bréfum, til að kaupa önnur hlutabréf. Þegar eitthvað súrnaði varð keðjuverkun vegna krosseignarhalds.
Auk þess lánuðu íslenskir bankar fyrir hlutabréfakaupum í sjálfum sér með veði í bréfunum sjálfum. Með því var öll áhættan hjá bönkunum sjálfum ef illa færi. Tilgangurinn var að skapa markað fyrir bréf sem engin eðlileg eftirspurn var eftir, og þar með til að hafa áhrif á eðlilega verðmyndun. Hæstiréttur Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu í málum gegn öllum gömlu stóru bönkunum þremur að þetta atferli hafi falið í sér markaðsmisnotkun.
Tekið hefur verið fyrir þessa hegðun með lagabreytingum á undanförnum árum.
Aukist hratt á þessu ári
Veðsett hlutabréfakaup hafa ekki verið jafn algengt tískufyrirbrigði síðastliðinn áratug og þau voru áður, þótt vissulega séu undantekningar þar á. Í lok árs 2014 var markaðsvirði veðsettra hluta 11,25 prósent af heildarmarkaðsvirði félaga í Kauphöll Íslands.
Eftir að heildarmarkaðsvirðið skreið aftur yfir eitt þúsund milljarða króna árið 2015 og fram á haustið 2018 var markaðsvirði veðsettra hluta nokkuð stöðugt í lengri tíma, frá um 105 milljörðum kóna og upp í 123 milljarða króna. Hlutfall veðtöku af heildarmarkaðsvirði skráðra félaga á þessu tímabili var frá um tíu prósent og upp í tæplega 14 prósent.
Þá virðist hafa átt sér stað einhver breyting. Síðastliðið ár hefur markaðsvirði veðsettra hluta aukist mjög hratt, eða alls um 64,2 milljarða króna. Stærstu stökkin voru tekin frá síðastliðnum áramótum og fram til dagsins í dag.