Tryggvi Gunnarsson, Umboðsmaður Alþingis, hefur sent bréf til dómsmálaráðuneytisins og spurt hvers vegna Haraldur Johannessen hafi ekki verið áminntur þegar hann sendi tveimur fjölmiðlamönnum bréf, sem höfðu fjallað um starfsemi ríkislögreglustjóra og persónu Haraldar, en bréf hans var skrifað á bréfsefni ríkislögreglustjóra.
Frá þessu var greint á vef RÚV.
Dómsmálaráðuneyti Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur komst að þeirri niðurstöðu í lok maí að framganga Haraldar Johannessen, ríkislögreglustjóra, hefði verið ámælisverð þegar hann sendi tveimur fjölmiðlamönnum bréf til að andmæla umfjöllun á sjónvarpsstöðinni Hringbraut.
Haraldur sakaði þá um að bera ábyrgð á ólögmætri meingerð vegna umfjöllunar um ríkislögreglustjóra og efnahagsbrotadeild embættisins.
Á vef RÚV segir að Tryggvi vilji fá skýringar frá dómsmálaráðuneyti Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur á því hvers vegna Haraldur var ekki áminntur. „Ég óska því, eftir að ráðuneytið geri grein fyrir að hvað marki og hvers vegna það taldi að sú háttsemi ríkislögreglustjóra félli ekki undir þau tilvik sem samkvæmt lögum skulu vera tilefni áminningar,“ segir í endursögn RÚV.
Áslaug Arna hefur sagt, að Haraldur verði ekki látinn fara úr embætti sínu, en átta af níu lögreglustjórum í landinu hafa lýst yfir vantrausti á hann, með formlegri yfirlýsingu. Hún hefur sagt að til greina komi að sameina embætti ríkislögreglustjóra og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.