Verðbólga mælist nú 3,0 prósent en hún var 3,2 prósent í ágúst. Á þessu ári hefur hún mest mælst 3,6 prósent í maí en síðan þá hefur hún farið skarpt niður á við. Verðbólga hefur ekki mælst jafn lág og nú síðan í mars síðastliðnum. Þetta kemur fram í tölum um verðbólguþróun sem Hagstofa Íslands birti í morgun.
Þar kemur einnig fram að verðbólga án húsnæðisliðar hafi hækkað um 2,9 prósent á síðustu tólf mánuðum, eða um nánast sömu prósentutölu og vísitala neysluverðs, sem mælir verðbólgu, með húsnæðisliðnum.
Verðbólguþróun skiptir sköpum fyrir mörg íslensk heimili, enda hefur hún áhrif á verðtryggð húsnæðislán. Flest íslensk heimili eru með slík lán.
Verðbólga fór undir 2,5 prósent verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands í febrúar 2014 og hélst þar þangað til á seinni hluta síðasta árs.
Verðbólgan hækkaði þá skarpt og mældist 3,7 prósent í desember síðastliðnum. Þar spiluðu margir þættir inn í, meðal annars vandræði íslensku flugfélaganna og væntingar um að þau myndu draga úr gjaldeyristekjum íslenska þjóðarbúsins og hækkandi verð á eldsneyti á heimsmarkaði.
Frá þeim toppi hefur verðbólgan því lækkað um 0,7 prósentustig.
Í greiningu aðalhagfræðings Íslandsbanka, Jóns Bjarna Bentssonar, sem birt var í dag er því spáð að verðbólga fari í 2,5 prósent strax í október og 2,3 prósent í desember. Samkvæmt því mun hún fara undir verðbólgumarkmið fyrir árslok.
Í þjóðhagsspá Íslandsbanka er gert ráð fyrir því að verðbólgan verði að jafnaði 2,6 prósent á árinu 2020 og 2,8 prósent árið 2021.