Tæknifyrirtækið Ripple, sem meðal annars sérhæfir sig í greiðslumiðlun á grunni bálkakeðjutækni (blockchain), hefur keypt íslenska fyrirtækið Algrim Consulting, sem hefur byggt upp tækni á sviði gjaldeyrisviðskipta og viðskipta með rafmyntir, með góðum árangri á undanförnum árum.
Kaupverðið er ekki gefið upp í tilkynningu, en Daði Ármannsson, framkvæmdastjóri Algrim, segir í tilkynningu sem birt hefur verið á vef Ripple, að starfsemi Ripple falli vel að því sem Algrim sé að gera, og að því leyti hafi viðskiptin verið rökrétt. Bæði fyrirtækin deili sömu sýn þegar kemur að tækni, meðal annars á sviði bálkakeðju tækni.
Að því er fram kemur í umfjöllun Northstack, sem sérhæfir sig í umfjöllun um nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi á Íslandi, þá hyggst Ripple reka starfsstöð á Íslandi og hyggur á frekari uppbyggingu hér á landi.
Ripple hefur verið meðal fremstu fyrirtækja á heimsvísu þegar kemur að þróun tækni sem byggir á bálkakeðju, og hefur byggt hratt upp alþjóðlega starfsemi þar sem viðskiptavinum er gert auðveldara fyrir með greiðslumiðlun og rafræn viðskipti.
Uppfært og leiðrétt: Upphaflega komu fram rangar upplýsingar um eignarhald félagsins. Beðist er velvirðingar á því. Um var að ræða rugling við annað félag sem ber sama nafn. Fréttin hefur verið leiðrétt.