Í september urðu til 136 þúsund ný störf í Bandaríkjunum, sem var heldur minna en flestar spár höfðu gert ráð fyrir. Laun hækkuðu ekki marktækt, samkvæmt upplýsingum frá vinnumálastofnun Bandaríkjanna sem vitnað er til í umfjöllun Wall Street Journal.
Atvinnuleysi í Bandaríkjunum mælist nú 3,5 prósent og hefur ekki verið lægra í hálfa öld, eða frá því í desember 1969. Þá eins og nú voru miklar deilur í kringum forsetaembættið, en Richard Nixon var þá forseti.
Atvinnuleysi hefur verið á niðurleið allt frá því það náði hámarki í fjármálakreppunni 2007 til 2009, en hæst fór það yfir 10 prósent á landsvísu. Þrátt fyrir að atvinnuleysi sé með lægsta móti þá er staðan mismunandi eftir svæðum í Bandaríkjunum. Minnst er atvinnuleysið á Vesturströnd Bandaríkjanna, en mikill efnahagslegur uppgangur hefur verið þar á undanförnum tíu árum.
Atvinnuleysi hefur verið á bilinu 4,5 til 4 prósent lengst af, á síðustu árum, en hefur farið lækkandi undanfarin misseri. Í ágúst mældist það 3,7 prósent en 3,5 prósent í september, eins og áður segir.