Viðbúið er að komandi vetur verði erfiður fyrir ferðaþjónustuna þar sem gjöbreytt staða er í greininni frá því sem var á undanförnum árum.
Sé litið til þátta eins og áhuga á landinu - sem birtist meðal annars í leit á Google - og síðan versnandi efnahagsumhverfis erlendis, þá gæti vandi ferðaþjónustunnar átt eftir að aukast nokkuð.
Þetta kemur fram í Fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, þar sem fjallað er um áhættuþætti í hagkerfinu fyrir fjármálakerfið.
Í ritinu, sem kom út í gær, segir að bankakerfið sé nokkuð sterkt og geti tekist á við áföll, meðal annars í ferðaþjónustu, en útlán til ferðaþjónustufyrirtækja eru um 9 prósent af heildinni.
Vanskil ferðaþjónustufyrirtækja hafa aukist um 15 prósent milli ára.
Þrátt fyrir fækkun ferðamanna hefur tekist að halda tekjum af hverjum ferðamanni hærri en þær hafa verið á undanförnum árum, og hefur þetta mildað höggið af falli WOW air og kyrrsetningu Max vélanna frá Boeing, sem hefur áhrif á efnahag og þjónustu Icelandair. Í ritinu segir að óvissa sé um hversu lengi kyrrsetningin muni vara en félagið reikna með þeim aftur í byrjun næsta árs.
Ferðaþjónustan hefur á síðustu árum haslað sér völl sem stærsta útflutningsgrein þjóðarbúsins. Vöxtur greinarinnar er nátengdur öðrum atvinnugreinum, svo sem verslun og þjónustu.
Í Fjármálastöðugleika segir að ferðaþjónustan gangi nú í fyrsta skipti í langan tíma í gegnum samdrátt eftir mikinn uppgang
nær samfleytt frá árinu 2010. „Viðbúið er að komandi vetur gæti orðið
erfiður fyrir greinina og vanskil aukist. Áframhaldandi samdráttur í
sætaframboði, færri leitir með Google og versnandi efnahagsumhverfi
á evrusvæðinu og í Bretlandi gæti bent til áframhaldandi samdráttar
í greininni, að minnsta kosti til skamms tíma litið. Ferðaþjónustan er í
samkeppni við ferðamannastaði erlendis en þar sem greinin er mannaflsfrek hafa samkeppnisskilyrði versnað í kjölfar launahækkana hér
á landi. Ferðaþjónustufyrirtæki hafa á síðustu mánuðum brugðist við
breyttu rekstrarumhverfi með hagræðingu í rekstri, meðal annars með
fækkun starfsfólks. Rekstrarerfiðleikar hafa stuðlað að samruna fyrirtækja í greininni og leitt til aukinnar samþjöppunar í lánasöfnun bankanna sem kann að auka mótaðilaáhættu þeirra. Bankarnir verða að
búa sig undir áframhaldandi samdrátt í greininni og vaxandi mótaðilaáhættu sem getur komið í fram í auknum vanskilum og útlánatöpum,“ segir í Fjármálastöðugleika.