„Í sögulegu samhengi eru stóru tíðindin í íslenskum stjórnmálum þessi: Flokkurinn sem var vanur að tróna yfir öllum hinum, á 20. öldinni - gerir það ekki lengur. Flokkurinn, sem var myndaður úr frjálslyndum armi og íhaldssömum armi, er ekki lengur fær um að veita forystu og takast á við þær breytingar sem blasa við okkur á 21. öldinni; hann er klofinn - þvers og kruss.“
Þetta sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í morgun.
Tækifæri til að fylkja saman umbótaöflum
Í ræðu sinni fjallar Logi um hversu stór tíðindi ný staða Sjálfstæðisflokksins er og að aðrir flokkar þurfi að bregðast við þessum nýja veruleika sem blasi nú við í íslenskum stjórnmálum. Hann segir þetta vera sögulegt tækifæri fyrir Samfylkinguna til að fylkja saman umbótaöflunum í landinu og sýna að það sé til betri valkostur fyrir íslenskan almenning en núverandi ríkisstjórn.
„Næsta stóra verkefni okkar er þetta: Við verðum, og segjum það bara skýrt, við verðum að fella þessa ríkisstjórn í kosningunum 2021, til að mynda betri, djarfari og víðsýnni stjórn fyrir fólkið í landinu og komandi kynslóðir - við verðum að rísa undir þeirri ábyrgð,“ segir Logi.
Segir ríkisstjórnina ófæra um að mæta áskorunum samtímans
Hann fjallar jafnframt um að heimurinn sé að breytast hratt og nauðsynlegt sé að breytast í takt við tímann. Að mati Loga er núverandi ríkisstjórn hins vegar ófær um að takast á við þær miklu áskoranir sem íslenska þjóðin stendur nú frammi fyrir, sem og þjóðir um allan heim.
„Þó snjöllustu lausnirnar verði oft til við snúnustu aðstæðurnar, mun sú ósamstíga og hugmyndasnauða ríkisstjórn sem nú er við völd - og er hvorki sammála um leiðir eða markmið - ekki bjóða upp á slíkar lausnir,“ segir Logi og bætir við að dæmi um það sé hversu svifasein og metnaðarlítil núverandi ríkisstjórn sé í loftslagsmálum.
„Ríkisstjórnin treystir sér ekki til að lýsa yfir neyðarástandi vegna hamfarahlýnunnar eða lögbinda markmið um kolefnishlutleysi sem skuldbindur hana til aðgerða. En þó ríkisstjórnin treysti sér ekki til þess að lýsa yfir neyðarástandi – þá ríkir sannarlega neyðarástand í loftslagsmálum,“ segir Logi en að hans mati þarf róttæka stefnu og aðgerðir til að tryggja að hægt verði að taka á vandanum án þess að honum sé alfarið velt yfir á þá sem lakast standa í landinu.
Samfylkiningin verði að bjóða upp á trúverðuga stefnu
Í ræðunni minnist hann jafnframt á menntamál og segir að stefna ríkisstjórnarinnar sé skýr í fjárlagafrumvarpinu, draga eigi úr framlögum til menntamála. Hann segir jafnframt skattastefnu ríkisstjórnarinnar ýta undir enn meiri ójöfnuð í landi þar sem 5 prósent íbúanna eiga nú þegar jafnmiklar eignir og hin 95 prósentin.
„Já, þetta er vond ríkisstjórn: Loftslagsmálin í lamasessi, menntamálin í afturför og skattastefna sem eykur ójöfnuð og til skammar fyrir alla nema harðsvíruðustu hægrimenn,“ segir Logi.
Að lokum segir Logi að Samfylkingin verði að bjóða upp á skýra og trúverðuga stefnu sem mætir áskorunum samtímans og ef hann geri það þá sé hann viss um að flokkurinn fái umboð til að leiða saman umbótaöflin í ríkisstjórn eftir næstu kosningar.