Melinda Gates hefur sett af stað samkeppni fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki, þar sem þeir hafa möguleika á því að fá frá henni 6 milljónir Bandaríkjadala, eða um 750 milljónir króna.
Skilyrði fyrir þátttöku er að nýsköpunarfyrirtækið sé að hluta í eigu konu sem er eldri en 18 ára, eða að kona sé einn af stofnendum sprotafyrirtækisins.
Melinda, sem er eigandi Gates Foundation ásamt eiginmanni sínum, Bill Gates, annars stofnanda Microsoft, tilkynnti um samkeppni í byrjun vikunnar, en samstarfsaðili hennar í verkefninu er Microsoft og sjóður á vegum fyrirtækisins sem nefnist M12.
Tveir sprotar munu fá 2 milljónir Bandaríkjadala, um 250 milljónir króna, og tveir sprota munu svo fá 1 milljón Bandaríkjadala, eða um 125 milljónir króna, þar sem verkefnin eru á sviði tæknilegra áskorana og rannsókna.
Tilkynnt verður um úrslitin á sérstakri athöfn 18. til 19. mars á næsta ári, í Sílikondalnum í Kaliforníu.
Teymi á vegum Pivotal Ventures, fjárfestingasjóðs Melindu, mun velja sprota til þátttöku í verkefninu, en Pivotal er stærsti fjárfestingasjóður heims, sem hefur það sérhæfða hlutverk að fjárfesta í konum og verkefnum sem stuðla að auknu jafnrétti og aukinni atvinnuþátttöku kvenna.
Pivotal hefur fjárfest í tugum sprotafyrirtækja á undanförnum tveimur árum, en fjárfestingar sjóðsins hafa farið leynt að miklu leyti.
Í tilkynningu Melindu vegna verkefnisins með Microsoft, er sérstaklega tiltekið að það sé opið fyrir frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum í mörgum löndum, og Ísland er nú eitt þeirra, en sú var ekki raunin í fyrra.
Löndin sem koma til greina, auk Bandaríkjanna og Íslands, eru 33 önnur ríki, þar á meðal Norðurlöndin öll, en þau koma ný inn á listann þetta árið.
Melinda tilkynnti um það 12. september síðastliðinn að hún ætlaði að fjárfesta einum milljarði Bandaríkjadala, eða sem nemur um 125 milljörðum króna, í verkefnum sem stuðla að auknu jafnrétti, á næstu fjórum árum.