Stjórn og samninganefnd Blaðamannafélags Íslands hefur samþykkt að efna til atkvæðagreiðslu miðvikudaginn 30. október næstkomandi um fjórar vinnustöðvanir í nóvember. Þetta kemur fram í tilkynningu frá BÍ í dag en Hjálmar Jónsson, formaður félagsins, skrifar undir hana.
Þá kemur fram í tilkynningunni að nú sé komið að ögurstundu. Ekki sé um annað að ræða en að efna til slíkrar atkvæðagreiðslu.
Verkfallið tekur eingöngu til netmiðla og ljósmyndara og tökumanna í fyrstu þremur skiptunum og lengist um fjórar klukkustundir í hvert skipti, samanber meðfylgjani atkvæðaseðil. Fjórða verkfallið tekur eingöngu til þeirra sem starfa á prentmiðlum og ljósmyndara og tökumanna, en netmiðlarnir verða í loftinu.
Verkfallið tekur einungis til fjögurra fyrirtækja
Verkfallið tekur til þeirra fjögurra fyrirtækja sem eru innan Samtaka atvinnulífsins: Árvakurs, Torgs, Sýnar og RÚV.
Kjörfundur hefst klukkan 9:30. Um morguninn verður farið á milli þessara fjögurra vinnustaða; á Morgunblaðinu, 9:30, á RÚV 10:30, á Sýn 11:30 og á Fréttablaðinu 12:30. Frá 13:30 og til 17:00 verður kjörfundur í húsnæði félagsins að Síðunmúla 23 og talið verður strax að loknum kjörfundi.
„Tíu mánuðir eru síðan síðastgildandi kjarasamningur lauk göngu sinni og sjö mánuðir síðan kjarasamningar voru gerðir á almennum vinnumarkaði, sem eiga að vera stefnumarkandi fyrir kaup og kjör í landinu. Þrátt fyrir það eigum við það skjalfest í tilboði atvinnurekenda frá 26. september síðastliðnum að það er verið að bjóða okkur minna en öllum öðrum, auk þess sem gerðar eru kröfur til þess að við afsölum okkur ýmsum réttindum sem við höfum áunnið okkur í gegnum tíðina,“ segir í tilkynningu BÍ.
41 ár síðan BÍ efndi síðast til verkfallsátaka
Jafnframt segir í tilkynningunni að það hafi tekið félagið mánuð, frá því slitnaði upp úr, að ákveða aðgerðir, „þannig að ekki verðum við sökuð um óbilgirni og ekki er hægt að þakka atvinnurekendum okkar fyrir frumkvæði eða samningsvilja. Sennilega trúa þeir því ekki að það komi til aðgerða, enda blaðamenn seinþreyttir til vandræða og vanari því að standa á hliðarlínunni og segja söguna en vera sagan. Það eru enda 41 ár síðan Blaðamannafélagið efndi síðast til verkfallsátaka og það var aðeins í annað sinn í meira en 120 ára sögu félagsins að gripið er til slíks. Nú erum við að skrifa framhald þeirrar sögu og við reynum að gera það þannig að það verði okkur til sóma og íslensku samfélagi til heilla.“
Verkfallið tekur, eins og áður segir, eingöngu til netmiðla og ljósmyndara og tökumanna í fyrstu þremur skiptunum. Fjórða verkfallið tekur eingöngu til þeirra sem starfa á prentmiðlum og ljósmyndara og tökumanna, en netmiðlarnir verða í loftinu.
Félagið stendur vel fjárhagslega
„Þannig undirstrikum við mikilvægi upplýsingakerfisins og nauðsyn þess að það sé ávallt starfandi og deilum byrðunum. Stjórn og samninganefnd hefur ákveðið að bæta að fullu úr varasjóði félagsins það launatap sem þeir verða fyrir sem taka þátt í verkfallinu. Við eigum sem betur fer nokkuð digra sjóði eftir fjörutíu ár og félagið stendur vel fjárhagslega. Þar til viðbótar hef ég fengið staðfest að tæplega 50 þúsund félagar okkar á Norðurlöndunum standa með okkur og munu veita okkur fjárhagslegan stuðning dragist verkfallið á langinn samkvæmr samningi þar um,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur enn fremur fram að ef þeir sem treyst er fyrir rekstri fjölmiðla legðu sig fram að einhverju marki með sama hætti og blaðamenn gera á hverjum einasta degi í vinnu sinni, væri þessi alvarlega staða ekki uppi. „Við hljótum að vona að það standi til bóta svo skaði vegna átaka verði sem minnstur.“