Laufey Rún Ketilsdóttir lögfræðingur hefur verið ráðin starfsmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og hefur þegar hafið störf. Hún er 32 ára gömul.
Laufey Rún var ráðin aðstoðarmaður Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar undir forsæti Bjarna Benediktssonar var mynduð í janúar 2017. Hún hélt svo áfram í því starfi þegar ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var mynduð síðla árs 2017. Sígríður sagði af sér sem dómsmálaráðherra í vor eftir niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu svokallaða.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var svo skipuð dómsmálaráðherra í september og ákvað að ráða sér nýja aðstoðarmenn, þau Eydísi Örnu Líndal og Hrein Loftsson.
Laufey Rún var formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna árin 2015 til 2017. Þá var hún framkvæmdastjóri SUS árið 2015 og sat í stjórn sambandsins frá 2010. Laufey Rún hefur einnig setið í stjórn Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík.