Hagfræðideild Landsbankans spári því að landsframleiðsla dragist saman á þessu ári um 0,4 prósent. Horft til næstu ára er gert ráð fyrir hóflegum hagvexti, 2 prósent á næsta ári og heldur meiri á árunum 2021 og 2022.
Spá hagfræðideildar gerir ráð fyrir miklum samdrætti í atvinnuvegafjárfestingu, eða 21,2 prósent. Gangi það eftir, er það mestur samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu frá því árið 2009.
Þetta kemur fram í nýrri hagspá hagfræðideildar Landsbankans.
Hagfræðideildin telur að hagvöxtur næstu ára verði studdur af lágum en sjálfbærum vexti einkaneyslu, auknum opinberum fjárfestingum, vaxandi útflutningi og viðsnúningi í atvinnuvegafjárfestingu þegar fram í sækir.
Spáin gerir ráð fyrir umtalsverðum samdrætti í innflutningi á þessu ári, eða 6,4 prósent, en að síðan taki innflutningur að aukast á næsta ári, með batnandi tíð og auknum hagvexti.
Hagspáin endurspeglar að óvissa er um þróun hagvaxtar í heiminum næstu misseri sem birtist nú þegar í hægari vexti alþjóðaviðskipta og iðnaðarframleiðslu.
„Frekari stigmögnun þeirrar þróunar, umfram það sem nú er gert ráð fyrir, kann að hafa töluverð neikvæð áhrif hér á landi, m.a. á ferðaþjónustuna, sjávarútveg og orkufrekan iðnað. Að sama skapi myndi jákvæður viðsnúningur í alþjóðaviðskiptum hafa jákvæð áhrif hérlendis, umfram það sem spáin gerir ráð fyrir. Í spánni er gert ráð fyrir að verðbólga verði í stórum dráttum í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands (2,5%) út spátímabilið, enda gert ráð fyrir að hagvöxtur verði í takt við langtímaframleiðslugetu þjóðarbúsins,“ segir í tilkynningu bankans.
Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, segir að það hafi oft verið þannig í hagsögu Íslands, að í lok hagvaxtarskeiðs fylgi erfitt aðlögunartímabil. „Lokum hagvaxtarskeiða á Íslandi hefur oft fylgt erfitt aðlögunartímabil vegna ójafnvægis sem byggst hefur upp á góðærisárunum. Því er þó ekki þannig farið í þetta skiptið.
Þvert á móti er staða fyrirtækja og heimila almennt nokkuð góð ef horft er til eigna og skuldsetningar. Þá hefur kaupmáttur launa aldrei verið meiri, staða ríkissjóðs er mjög sterk og staða sveitarfélaga hefur almennt batnað. Þá hefur Seðlabankinn byggt upp
mjög myndarlegan óskuldsettan gjaldeyrisvarasjóð sem er mikil breyting frá því sem áður var. Þar að auki styður afgangur á utanríkisviðskiptum við gengi krónunnar,“ segir Daníel.