Áslaug Arna Sigurbjörnsson dómsmálaráðherra hyggst hefja vinnu við það að skilja að ríki og kirkju á næsta ári.
Þetta kom fram í fréttum RÚV í kvöld.
Áslaug Arna sagði í fréttum RÚV að aukið ákall sé um það í samfélaginu, að sjálfstæði trúfélaga og lífskoðunarfélaga sé algjört. Hún sagði að markmið þeirrar vinnu, sem þegar sé komin af stað, sé að skilja að ríki og kirkju.
Til meðferðar á Alþingi er nú þingsályktunartillaga þingmanna stjórnarandstöðu flokka og þingmanna Vinstri grænna, þar sem lagður er til aðskilnaður ríkis og kirkju.
Í umsögn um málið hefur Biskup Íslands, Agnes Sigurðardóttir, sagt að það sé ekkert forgangsmál að kirkjan sé hluti af ríkisvaldinu.
„Að viðhalda tengslum kirkjunnar við ríkisvaldið er í sjálfu sér ekki forgangsmál kirkjunnar. Skyldur kirkjunnar liggja fyrst og fremst í því að rækta og viðhalda tengslunum við þjóðina,“ segir Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, í umsögn um þingsályktunartillögu um fullan aðskilnað ríkis og kirkju. Hún tekur þó fram í umsögninni að Biskupsstofu hugnist að kirkjan verði áfram þjóðkirkja landsins.
Þingsályktunartillaga þingmanna fjögurra flokka um að fela ríkisstjórninni að leggja fram frumvarp um fullan, lagalegan og fjárhagslegan aðskilnað ríkis og kirkju var lögð fram í september síðastliðnum.
Tillagan er nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd og hefur nefndin sent umsagnabeiðnir á yfir fjörutíu trú- og lífsskoðunarfélög.