Framsóknarflokkurinn tapaði rúmlega tveimur milljónum króna í fyrra, samkvæmt ársreikningi, en ríkisframlög voru bróðurpartur tekna flokksins. Tæplega 80 milljónir komu til flokksins úr ríkissjóði, í samanburði við 44 milljónir árið 2017. Heildartekjur flokksins námu 121 milljón í fyrra.
Þetta kemur fram í ársreikningi flokksins fyrir árið í fyrra.
Hámarksstyrkur frá einkaaðilum er 400 þúsund krónur, og voru átta fyrirtæki sem gáfu slíka upphæð. Af þessum átta voru sex fyrirtæki í sjávarútvegi, að fiskeldi meðtöldu.
Sveitarfélög greiddu 5,9 milljónir króna til flokksins. Einstaklingar lögðu flokknum til 6,5 milljónir, þar af námu styrkir og félagsgjöld undir 200 þúsund krónum 5,3 milljónum. Leigutekjur og happdrætti skiluðu flokknum 20 milljónum.