Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, segist hugsi yfir því sem hann kallar fyrirlitlegar aðgerðir stjórnenda Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins og mbl.is, gegn undirmönnum sínum þegar starfsmenn mbl.is áttu að leggja niður störf í fjóra tíma á föstudag og ekkert efni að birtast á vefnum, en efni var samt birt.
Í pistli sem hann birtir á heimasíðu Blaðamannafélags Íslands segir Hjálmar, sem starfaði á Morgunblaðinu í aldarfjórðung á árum áður, að þær aðgerðir sem stjórnendur Árvakurs beittu, og í fólst að láta aðra sem voru ekki í verkfalli skrifa á vefinn, hafi verið til þess að brjóta niður löglega boðaða vinnustöðvun. Það sé óskiljanlegt að tefla samstarfsfólki gegn hvert öðru með þeim hætti sem gert var. „Þar var sannarlega fórnað meiri hagsmunum fyrir minni og sannar endanlega, að mínu viti, að þeir stjórnendur sem stjórn og eigendur fyrirtækisins hafa valið til þessa ábyrgðarfulla starfs eru engan veginn starfi sínu vaxnir, því miður.“
Ritstjórar Morgunblaðsins eru Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen. Haraldur er einnig framkvæmdastjóri Árvakurs.
Hjálmar segir að hjá Fréttablaðinu og Sýn hafi framkvæmd verkfallsins verið til fyrirmyndar. „Það hefur hins vegar augljóslega verið erfitt að horfa upp á mbl.is í loftinu vegna verkfallsbrota á sama tíma og visir.is og frettabladid.is voru það ekki. Ég hlýt að velta því fyrir mér hvort eigendur þessara ágætu fyrirtækja, sem virtu boðaða vinnustöðvun starfsmanna sinna, og Ríkisútvarpsins, sem er í eigu almennings, geti hugsað sér að vera í kompaníi með verkfallsbrjótum. Ef þessi fyrirtæki ætla að halda samstarfi sínu við Árvakur áfram, þurfa þau þá ekki að samræma afstöðu sína til framkvæmdar vinnustöðvana?“
Með vitund og vilja ritstjóra
Blaðamenn og fréttastjórar á frétta- og íþróttadeild mbl.is sendur í gær frá sér yfirlýsingu vegna meintra verkfallsbrota á miðlinum. Þeir lýstu yfir vonbrigðum með það framferði og þau viðhorf til löglega boðaðra aðgerða sem birtust á miðlinum.
Í yfirlýsingunni kom fram að klukkan 10 í gærmorgun hefði blaðamenn á fréttadeild og íþróttadeild mbl.is lagt niður störf, rétt eins og blaðamenn í Blaðamannafélagi Íslands á netmiðlum RÚV, Torgs og Sýnar gerðu, í samræmi við tímabundna vinnustöðvun blaðamanna á netmiðlum sem samþykkt var í atkvæðagreiðslu félagsmanna Blaðamannafélags Íslands 30. október síðastliðinn til áréttingar kröfum félagsmanna í Blaðamannafélaginu í kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins.
Fram kemur hjá blaðamönnunum og fréttastjórunum að þessi umræddu fréttaskrif hafi verið með vitund og vilja ritstjóra og framkvæmdastjóra Morgunblaðsins.
„Við undirrituð blaðamenn og fréttastjórar á frétta- og íþróttadeild mbl.is lýsum yfir vonbrigðum með þetta framferði og þau viðhorf til löglega boðaðra aðgerða sem þarna birtast. Við teljum að þetta framferði sé til þess fallið að varpa rýrð á mbl.is, ekki síst þá blaðamenn sem þar starfa og leitast eftir fremsta megni við að sinna starfi sínu af heilindum og fagmennsku. Að okkar mati er þetta síst til þess fallið að finna vænlega lausn á kjaradeilunni sem nú stendur yfir.
Með því að senda þessa yfirlýsingu viljum við að það komi skýrt fram að þær fréttir og umfjallanir, sem skrifaðar voru og birtar á mbl.is á meðan á löglega boðuðum aðgerðum félaga í Blaðamannafélagi Íslans stóð, eru ekki á okkar ábyrgð,“ sagði að lokum í yfirlýsingunni en undir hana skrifa 17 blaðamenn og fréttastjórar.