Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað þriggja manna nefnd til að meta hæfni umsækjenda um embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika. Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, er formaður nefndarinnar.
Frá þessu er greint í frétt á vef Stjórnarráðs Íslands.
Með honum skipa nefndina Ásta Dís Óladóttir, lektor við Háskóla Íslands, tilnefnd af samstarfsnefnd háskólastigsins, og Jacqueline Clare Mallet, lektor við Háskólann í Reykjavík, tilnefnd af bankaráði Seðlabanka Íslands.
Tíu einstaklingar sóttu um embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika en áformað er að hæfnisnefndin skili niðurstöðum sínum til ráðherra eigi síðar en 15. desember næstkomandi.
Eftirfarandi er listi yfir umsækjendur um stöðu varaseðlabankastjóra:
Arnar Bjarnason, lektor og framkvæmdastjóri
Ásdís Kristjánsdóttir, aðalhagfræðingur og forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins
Guðrún Johnsen, hagfræðingur
Gunnar Jakobsson, lögfræðingur
Haukur C. Benediktsson, hagfræðingur
Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins
Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur
Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga
Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu
Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja
Aðrir varaseðlabankastjórar eru Rannveig Sigurðardóttir og Unnur Gunnarsdóttir, en seðlabankastjóri er Ásgeir Jónsson.