Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir að þær ásakanir sem komu fram í fréttaskýringarþættinum Kveiki á RÚV í gær, varðandi mútugreiðslur Samherja í Namibíu, séu grafalvarlegar og hafi neikvæð áhrif á ímynd og orðspor Íslands.
Þetta kemur fram í viðtali við Guðlaug á vef mbl.is, en hann var einnig til viðtals í Kastljósi RÚV í kvöld. Hann sagði þar, að mikilvægt væri að Ísland sendi út þau skilaboð, að það væri verið að rannsaka þessi mál af fullum þunga.
Guðlaugur Þór segir, að ef það reynist rétt sem fram komi í þættinum, þá sé það verulegt áfall og háttsemin forkastanleg. „Ef að rétt reynist þá eru þessar fréttir auðvitað áfall og háttsemin sem þarna er lýst auðvitað forkastanleg. En núna er náttúrulega mikilvægt að þetta mál verði rannsakað ofan í kjölinn af þar til bærum yfirvöldum,“ segir Guðlaugur Þór.
Bæði dómsmálaráðherra og sjávarútvegsráðherra Namibíu hafa sagt af sér vegna málsins, en þeir voru á meðal þriggja manna, sem nátengdir voru sjávarútvegsráðherra landsins, sem fengu yfir milljarðs króna greiðslur frá Samherja í skiptum fyrir fiskveiðikvóta.
Guðlaugur Þór segir jafnframt að það sé mikilvægt núna, að Ísland sé aðili að alþjóðasamningum sem tryggi að yfirvöld geti unnið að rannsókn og leitt það til lykta, í alþjóðlegu samstarfi.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, lét hafa eftir sér í morgun, að nú væri mikilvægt að velta við hverjum steini til að rannsaka þessi mál, og leiða málin til lykta.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, hafa einnig sagt að nú sé mikilvægt að rannsaka ásakanir vel, sem komi fram í þættinum. Það sé skilyrðislaus krafa til allra fyrirtækja í sjávarútvegi að farið sé að lögum bæði innanlands og utan.