Gylfi Zoega hagfræðiprófessor segir í grein í Vísbendingu sem kom til áskrifenda í dag, að það sé mikilvægt mál fyrir samfélög, að styrkja umgjörð um markaðsbúskap þar sem almannahagsmunir ráði ferðinni. Hættan á því að sérhagsmunir ráði för, tengist endalausri baráttu sérhagsmuna fyrir því að veikja eftirlitsstofnanir til að verja hag þeirra sem geti hagnast á aðstöðumun og einokun.
„Það er í þessu ljósi sem skilja má umræðu um að draga úr umfangi eftirlitsstofnana, veikja samkeppniseftirlit, fjármálaeftirlit og seðlabanka. Þetta eru þær stofnanir sem gæta hags almennings þegar hagur stórfyrirtækja og almennings fer ekki saman vegna fákeppni, ófullkominna upplýsinga eða áhættu sem lögð er á neytendur og skattgreiðendur án vitundar þeirra.
Einstök fyrirtæki og atvinnugreinar hafa þá hag af því að regluverk sé afnumið og slakað á eftirliti en einstaklingar sjá sér ekki hag í því að skipta sér af málum hver fyrir sig þótt allir hafi þeir hag af því að þessar stofnanir séu sterkar.
Á árunum fyrir 2008 lögðu aðilar í viðskiptalífinu mikla áherslu á að dregið yrði úr regluverki til þess að bæta samkeppnisumhverfi fyritækja. Oft er slíkt réttlæt með því að eftirlitslaust markaðshagkerfi leiði saman hagnaðarsókn fyrirtækja og almannahagsmuni. Þetta er kenningin um hina „ósýnilegur hönd“ sem Adam Smith fjallaði um í Auðlegð þjóðanna.
En þá gleymist oft að margvísleg skilyrði þurfa að vera uppfyllt til þess að svo verði; fyrirtæki og neytendur verða að vera margir, fullkomnar upplýsingar um gæði og eðli vöru, enginn kostnaður við að setja upp ný fyrirtæki, og, síðast en ekki síst, varan þarf að vera samkynja, eins og mjólk sem enginn veit frá hvaða bónda kemur. Oftast eru þessi skilyrði ekki uppfyllt, sérstaklega á fjármálmörkuðum þar sem upplýsingar eru eðli máls samkvæmt ófullkomnar. En þótt einkarekstur og markaðshagkerfi sé áfram besti kosturinn þá er oft þörf á eftirliti,“ segir meðal annars í grein Gylfa.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.