Í minnihlutaáliti Birgis Þórarinssonar, þingmanns Miðflokksins, vegna fjárlaga leggur hann til að þær 400 milljónir króna sem ætlaðar eru til styrktar einkareknum fjölmiðlum á næsta ári verði felldar út úr frumvarpinu.
Þar segir hann að Miðflokkurinn sé með í smíðum tillögur sem feli í sér styrk til einkarekinna fjölmiðla en með annarri aðferðafræði en tillögur ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir. Tillögurnar verði kynntar innan skamms.“
Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í september síðastliðnum var gert ráð fyrir að 400 milljónir króna fari í stuðning við rekstur einkarekinna fjölmiðla á næsta ári. Í áliti meirihluta fjárlaganefndar, sem samanstendur af þingmönnum ríkisstjórnarinnar, er ekki lagt til að beinar breytingar verði gerðar á þessari ráðstöfun.
Andstaða hafði verið við það innan þingflokks Sjálfstæðisflokks en samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar stendur vilji hennar til að fjármagna áform Lilju á næsta ári. Af þeim 400 milljónum króna sem eyrnamerktar eru þessum tilgangi eiga 50 milljónir króna að renna til textunar og talsetningar.
Til viðbótar við 350 milljón króna greiðslu vegna beinna styrkja til einkarekinna fjölmiðla á að styðja við slíka með stuðningi sem nemi allt að 5,15 prósent af launum starfsfólks á ritstjórn sem fellur undir lægra skattþrep tekjuskattsstofna. Umfang þeirrar aðgerðar er metið 170 milljónir króna. Því eiga áformin í heild að kosta um 520 milljónir króna á ári.
Fjórðungur kostnaðar upp að þaki
Markmiðið með aðgerðunum er að efla hlutverk ríkisins, þegar kemur að fjölmiðlaumhverfinu, og styrkja rekstrarumhverfið, en í frumvarpinu felst meðal annars að stíga fyrstu skrefin í átt að því sem þekkst hefur á Norðurlöndunum um árabil. Í frumvarpinu er lagt til að stuðningur ríkisins við einkarekna fjölmiðla verði tvíþættur.
Sá stuðningur sem nú er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu felur í sér að veita stjórnvöldum heimild til að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla í formi endurgreiðslu á allt að 25 prósent af tilteknum hluta ritstjórnarkostnað einkarekinna fjölmiðla. Skilyrði fyrir styrknum verða að viðtakendur uppfylli ýmis skilyrði fjölmiðlalaga, efni þeirra sé fjölbreytt og fyrir allan almenning og byggist á fréttum, fréttatengdu efni og samfélagsumræðu í víðum skilningi.
Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2020 og endurgreiðslur miðist við síðastliðið ár.Gert er ráð fyrir endurgreiðsluhæfur kostnaður verði bundinn við beinan launakostnað blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara og prófarkalesara auk verktakagreiðslna fyrir sömu störf.
Hlutfall endurgreiðslu verði að hámarki vera 25 prósent af kostnaði við framangreint, þó ekki hærri en 50 milljónir til hvers umsækjanda vegna síðastliðins árs. Jafnframt kom fram í frumvarpsdrögunum að heimild sé til að veita staðbundnum fjölmiðlum viðbótar endurgreiðslu.
Framlög til RÚV aukast
Útvarpsgjaldið hækkar um 2,5 prósent milli ára samkvæmt fjárlögunum og áætlaðar tekjur Ríkisútvarpsins (RÚV) vegna þeirra aukast um 180 milljónir króna. Áætlað er að útvarpsgjaldið verði 4.770 milljónir króna á næsta ári.
Mennta- og menningarmálaráðherra sagði í ágúst að í undirbúningi væri að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði. Ríkismiðlinum verði hins vegar bætt upp það tekjutap en hann hefur haft yfir tvo milljarða króna í slíkar tekjur á undanförnum árum.
Þjónustusamningur RÚV við mennta- og menningarmálaráðuneytið, sem skilgreinir hlutverk, skyldur og umfang RÚV, rennur út í lok þessa árs.