Fyrirhugað er að smíða löggjöf til varnar hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds, m.a. í samræmi við tilmæli GRECO, samtaka ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu, og starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.
Frumvarp sem tekur á þessum málum hefur nú verið birt í samráðsgátt.
Meðal þess sem fram kemur í frumvarpinu, er að skylda alla þá sem starfa í æðsta lagi íslenskrar stjórnsýslu og í stjórnmálum að gefa upp hagsmuni sína og gera ítarlega grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum sínum.
Fyrirhugað er að gera ráðherrum, aðstoðarmönnum ráðherra, ráðuneytisstjórum, skrifstofustjórum og sendiherrum skylt með lögum að skila til forsætisráðuneytisins skrá yfir nánar tilteknar eignir, skuldir og sjálfsskuldarábyrgðir þ.m.t. erlendis, þegar viðkomandi hefur störf hjá Stjórnarráðinu. Sömu upplýsingum þurfi að skila varðandi maka og ólögráða börn, að því er fram kemur í frumvarpinu.
Forsætisráðuneytinu er hugað miðlægt eftirlitshlutverk, samkvæmt frumvarpinu, við framkvæmd fyrirhugaðra reglna.
Forsætisráðuneytið sinnir nú þegar ýmsum verkefni á sviðinu á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands, siðareglna ráðherra og yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda ráðherra, sbr. m-lið 1. tölul. 1. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands nr. 119/2018, en gert er ráð fyrir að hlutverk ráðuneytisins verði skýrara og mótaðra en nú er. Hlutverk ráðuneytisins verður m.a. að:
Halda utan um hagsmunaskráningu æðstu handhafa framkvæmdarvalds.
Halda utan um skrá yfir hagsmunaverði.
Halda skrá um og veita álit um gjafir.
Halda skrá um og veita álit um heimil aukastörf.
Skila að eigin frumkvæði áliti ef upp koma mál sem ráðuneytið telur fela í sér hagsmunaárekstra miðað við þær upplýsingar sem það hefur um hagsmunaskráningu.
Taka stjórnvaldsákvarðanir á grundvelli reglna um biðtíma að loknum störfum fyrir hið opinbera og veita undanþágur frá þeim.
Veita álit um fyrirhuguð störf eftir að störfum fyrir hið opinbera lýkur.
Taka stjórnvaldsákvarðanir þegar framangreindar reglur eru brotnar, t.d. þegar aðili virðir að vettugi álit um hvort fyrirhugað starf geti valdið hagsmunaárekstrum eða hefur störf án þess að kanna afstöðu til starfs. Til greina kemur að ráðuneytið fái heimildir til að beita stjórnvalds- eða dagsektum.
Þá mun það koma í hlut forsætisráðuneytisins að túlka ákvæði siðareglna sem skarast við fyrirhugaða lagasetningu.
„Telja verður einnig fært að fela sjálfstæðum eftirlitsaðila hluta framangreinds hlutverks. Koma þar helst til skoðunar þær leiðir að fela Ríkisendurskoðun afmörkuð verkefni eða að koma á fót nýrri sjálfstæðri stjórnsýslunefnd um þau, eins og t.d. hefur verið gert í Noregi vegna starfsvals að loknum opinberum störfum. Helstu röksemdir fyrir þeirri leið sem hér er miðað við er að valdheimildir stjórnvalda á sviðinu fylgi pólitískri ábyrgð forsætisráðherra eins og frekast er unnt. Taka ber fram að í tilvikum þar sem málefni forsætisráðherra sjálfs eða tengdra aðila kæmu til skoðunar í ráðuneytinu þyrfti að setja ráðherra staðgengil, sbr. almennar hæfisreglur stjórnsýsluréttarins,“ segir meðal annars í frumvarpinu.