Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Mussila fékk í dag Norrænu fræðslu- og tækniverðlaunin (EdTech) sem voru afhent í Helsinki í Finnlandi.
Mussila kennir börnum tónlist og nýtur alþjóðlegra vinsælda hjá börnum, foreldrum og kennurum. „Börnin læra í gegnum leik að þekkja fjölda hljóðfæra, lesa nótur og spila lög. Smáforritið fylgir markvissri námsáætlun og geta foreldrar fylgst með árangri barnanna jafnt og þétt,“ segir í tilkynningu.
Leikurinn var fyrst gefinn út fyrir tveimur árum og hefur vaxið og tekið miklum breytingum frá þeim tíma.
Margrét Júlíana Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Mussila kynnti stefnu og sýn Mussila. Fyrirtæki frá Norðurlöndunum kynntu m.a. vélmenni sem kenna börnum tungumál, vettvang fyrir kennara til að fylgjast með árangri nemanda og sýndurveruleikalausnir í kennslu, svo fátt eitt sé nefnt.
Fyrir tveimur mánuðum hlaut Mussila foreldraverðlaunin í Bandaríkjunum sem besta appið fyrir börn og nú á dögunum var Mussila einnig tilnefnt sem Global Finalist á Bett verðlaununum í London sem fer fram í London í janúar 2020. Alls eru sex starfsmenn starfandi hjá Mussila og eru þau öll stödd í Helsinki, þar sem verðlaunin voru afhent.
„Þessi verðlaun eru bara stórkostleg viðurkenning fyrir okkur í Mussila. Við erum með hvílíkt ofurteymi sem hefur af miklum metnaði unnið að Mussila Music School - til að gera hann að þeirri vöru sem hann er í dag. Tónlistarnám er gríðarlega mikilvæg námsgrein sem hefur víðtæka skírskotun og eflir í raun árangur barna í flestum öðrum fögum. Með þessu erum við að leggja okkar af mörkum til að gera tónlistarmám aðgengilegt öllum börnum,“ segir Margrét Júlíana Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Mussila.