Upp úr viðræðum Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins hefur slitnað, og eru þá verkfallsaðgerðir framundan.
Frá þessu er greint á mbl.is, en reynt hefur verið til þrautar að undanförnu að ná samningum.
Þriðja vinnustöðvun BÍ, sem eru liður í verkfallsaðgerðum til að knýja á um kjarabætur, nær til blaða- og fréttamanna í Blaðamannafélagi Íslands sem starfa á mbl.is, visir.is og frettabladid.is, auk tökumanna og ljósmyndara hjá Árvakri, Ríkisútvarpinu, Sýn og Torgi. Hún fer fram á morgun, föstudag, og stendur í tólf klukkustundir frá kl. 10 til 22.
„Það er enginn samningsvilji, því miður, og það verður verkfall á morgun. Ég sé það bara þannig að þessi fyrirtæki séu bandingjar SA og séu í einhverju lífskjarasamningsmambói sem er með ólíkindum,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, í samtali við mbl.is.
Kjarninn hefur þegar undirritað kjarasamning við Blaðamannafélag Íslands og það sama á við um Stundina og Birting.