„Til þess að bregðast við lægri fæðingartíðni og öldrun samfélaga á Vesturlöndum er þrennt til ráða: Auka fæðingartíðni, auka vinnumarkaðsþátttöku ungra sem aldinna og leyfa aðflutning erlends vinnuafls.“
Þetta kemur fram í ítarlegri grein Gylfa Zoega, hagfræðiprófessors, sem birtist í nýjustu útgáfu Vísbendingar, sem ber heitið: Um börn og fósturbörn.
Í greininni fjallar hann um lýðfræði og alþjóðastjórnmál og meðal annars hvernig innflytjendamál hafa birst sem þrætuepli á sviði stjórnmála og einnig sem áhrifamikil breyta í hagfræði.
„Í fyrsta lagi getur hið opinbera reynt að hafa áhrif á ákvarðanir um barneignir með því að niðurgreiða kostnað við barnauppeldi; greiða fyrir fæðingarorlof, niðurgreiða leikskóla o.s.fr. Jafnvel mætti hugsa sér að umbuna þeim sem eignast börn með eingreiðslum, eins konar verðlaunum samfélagsins fyrir að hafa komið með fleiri einstaklinga í heiminn. Hver nýr þjóðfélagsþegn mun svo síðar á ævinni sem hluti af hagkerfinu skapa verðmæti og greiða skatta í ríkissjóð og standa undir kostnaði við þá sem komnir eru á efri ár.
Í öðru lagi er unnt að auka vinnumarkaðsþátttöku með því að stytta skólagöngu og hækka lífeyrisaldur. Í Danmörku er lífeyrisaldur tengdur við ævilíkur og hækkar þá yfir tíma. Þetta kemur í veg fyrir að hærri ævilíkur verði til þess að auka framfærslubyrði á þá sem eru á vinnumarkaði. Það væri æskilegt að svipað fyrirkomulag verði tekið upp hér á landi með formlegum hætti. Stytting skólagöngu er hins vegar varasamari vegna þess að hún getur bitnað á mannauði fólks, minnkað framleiðni á hverju ári á vinnumarkaði þótt árunum á vinnumarkaði fjölgi. Það er alls óvíst hvort að stytting framhaldsskóla í þrjú ár hér á landi hafi verið gæfuspor.
Í þriðja lagi er unnt að leyfa fleirum að flytja til landsins. Hér á landi gerist þetta nokkuð sjálfkrafa með búferlaflutningum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Þannig má líta innflytjendur sem „fósturbörn“ sem komi í staðinn fyrir þá sem ekki fæddust.
Rannsóknir erlendis hafa sýnt að aðflutningur erlends vinnuafls einn nægi varla til þess að koma í veg fyrir hækkun á framfærslubyrði vinnandi fólks á Vesturlöndum á næstu áratugum. Ein rannsókn leiddi þó í ljós að aðflutningur erlends vinnuafls gæti komið í veg fyrir öldrun bandarísku þjóðarinnar en það gerðist fyrst og fremst vegna þess að frjósemi innflytjenda væri meiri en frjósemi innfæddra. En þessi áhrif eru minni ef innflytjendur eru fyrst og fremst karlar, sem ekki ætti að koma á óvart, eins og reyndin hefur verið með innflytjendur frá Mið-Austurlöndum í Þýsklalandi og í Svíþjóð undanfarin ár.
Niðurstaða fjölda rannsókna hefur verið sú að til þess að stemma stigu við öldrun samfélaga á Vesturlöndum þurfi allt þrennt að fylgjast að; hærri fæðingatíðni, aukin vinnumarkaðsþátttaka og aðflutningur erlends vinnuafls, ekkert eitt þessara atriða nægi til þess að koma í veg fyrir öldrun samfélaga í Evrópu. Einnig er með öllu óvíst hvað ríkisvaldið getur gert til þess að hafa áhrif á þessa þætti og hversu mikil þau áhrif yrðu,“ segir meðal annars í grein Gylfa.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.